Fyrirmyndarborgarar


Ingibjörg Hinriksdóttir.

Fyrir ári síðan festi ég kaup á íbúð syðst í Hlíðarhjallanum, er þar í blokk og hef dásamlegt útsýni til suðurs yfir Kópavogsdalinn. Úr stofuglugganum mínum er útsýni til Bláfjalla í austri og út á Álftanes í vestri. Eftir ársdvöl í þessari frábæru íbúð hef ég fylgst með mannlífinu í dalnum, sem er fjölbreytilegt. Þarna sé ég fólk á öllum aldri í heilsubótargöngu, sumir fara hratt yfir aðrir hægar. Sumir hafa með sér dýr í bandi en aðrir ýta á undan sér barnavagni. Margir hafa innkaupapoka í annarri höndinni og stundum báðum. 

Eldhúsverk eru mín jógastund, míninnri íhugun og oftar en ekki fær útsýnið úr eldhúsglugganum, sem snýr til suðurs eins og stofuglugginn, mig til að hugsa um lífsins gagn og nauðsynjar. Síðasta vor sá ég hvar búið var að kveikja sinu við lækinn. Vegfarendur reyndu að slökkva en illa gekk. Ég hringdi því í slökkvilið en fór svo sjálf út til að slökkva eldinn, vopnuð rúðusköfu úr Rúmfatalagernum.

Eldurinn var enda lítill þegar þarna var komið og svo sem ekki mikil hætta á að hann dreifði sér þannig að úr yrði erfiður bruni. Þegar slökkviliðið mætti á svæðið var eldurinn að mestu dauður og fékk ég þakkir fyrir frá brunavörðunum sem röltu sér í rólegheitum til að kanna hvort mér hafi ekki tekist að drepa í öllum glæðum. 

Þetta gladdi mig. En það sem gleður mig þó mest er þegar ég sé konu nokkra á röltinu í dalnum, oft með barn sé við hlið. Þar sem þau rölta um, ekki endilega á göngustígum, hirða þau upp rusl sem á vegi þeirra verður, setja það í poka og fara með í næstu ruslatunnu. Þetta hef ég ekki enn tekið upp eftir henni en hygg á bót og betrun þar um. Það mættu fleiri taka upp og vona ég að svo verði. 

Er þetta ekki toppurinn á fyrirmyndarborgaranum? Það finnst mér.