Hvaða framtíð vilt þú?


Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra, skipar 1. sæti á lista Bjartrar framtíðar í suðvesturkjördæmi.

Í alltof marga áratugi fríspiluðu íslensk stjórnvöld með náttúruauðlindirnar okkar og litlu máli virtist skipta hvaða flokkur var við völd hverju sinni. Þannig voru gömlu kerfisflokkarnir mjög afkastamiklir við að virkja hvert fallvatnið á fætur öðru til að lokka hingað mengandi stóriðju af ýmsum toga. Vinstri Grænir hafa líka lagt sitt af mörkum til stóriðjuuppbyggingar með vilyrði fyrir kísilmálmverinu sem nú rís á Bakka við Húsavík. Það versta er að það er engin ein stefna sem hefur stýrt þessari þróun, bara hver hefur bankað upp á hverju sinni eða bitið á krókinn.

Mengun frá kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík á Reykjanesi hefur valdið íbúum Reykjanesbæjar heilsufarslegum óþægindum frá því að verksmiðjan var opnuð. Það mun engu að síður líklega ekki hafa áhrif á áform fjárfesta um að byggja aðra samsvarandi verksmiðju í næsta nágrenni þeirrar sem fyrir er. Lífsgæði íbúa Reykjanesbæjar virðast ekki skipta þar máli. En nú er komið nóg.

Við í Bjartri framtíð viljum sjá græna og skapandi framtíð. Þess vegna lögðum við áherslu á að í viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem við höfum átt sæti í, kæmi skýrt fram að ekki yrðu veittar neinar frekari ívilnanir til mengandi stóriðju.

Þau stóriðjufyrirtæki sem eru hér fyrir eiga að búa við mjög stífa umhverfislöggjöf og kröfu um að skattar séu greiddir hér að fullu til íslensk samfélags. Við getum áfram ívilnað til nýfjárfestinga, bara ekki til mengandi stóriðju. Ívilnum frekar til nýsköpunar og hugvits. Þá eigum við  að nýta auðlindir okkar á sjálfbæran hátt, fullvinna afurðir og auka verðmæti þeirra með nýsköpun af fjölbreyttu tagi og, við eigum að setja rannsókna- og þróunarfjármagn í græn og loftslagsvæn verkefni.

Margar þjóðir hafa áttað sig á að framtíðarhagvöxtur og velmegun þeirra byggir á skýrri framtíðarsýn þar sem grænar, skapandi lausnir mynda grunn verðmætasköpunar. Við höfum alla burði til að vera fremst á meðal jafningja í þeirri þróun. Stefnum á græna og skapandi framtíð.