Líffræðingur kennir jóga


Kristín Harðardóttir, líffræðingur og jógakennari.

Undanfarna mánuði hefur verið tekin upp sú nýbreytni á Bókasafni Kópavogs að bjóða upp á slökunarjóga á safninu klukkan 12:00 á mánudögum. Kennarinn er einn starfsmanna menningarhúsa bæjarins, Kristín Harðardóttir, sem er líffræðingur á Náttúrufræðistofu Kópavogs en er ný útskrifuð úr jógakennaranámi.
„Ég kláraði námið í vor hjá Ástu Arnardóttur í Yogavin. Ég tók námið með vinnu á átta mánuðum en það fór fram í lotum í sumar og um helgar.“ En af hverju tekur virðulegur líffræðingur upp á að mennta sig í allt öðru fagi? „Ég gerði þetta bara fyrir sjálfa mig,“ segir Kristín. „Þetta er gott fyrir líkama og sál.“

Þegar fréttist af þessu uppátæki Kristínar á vinnustaðnum fæddist strax áhugi á því að nýta þessa nýju þekkingu í starfinu. Þannig atvikaðist að Kristín var fengin til að stýra slökunarjóga á bókasafninu. Fyrst var gerð tilraun í desember þar sem gestum safnsins var boðið að líta inn og láta jólastressið líða úr sér. Árangurinn var svo góður að ákveðið var að halda áfram á nýju ári og nú eru vikulegir tímar í hádeginu.

„Þetta er frábrugðið öðrum jógatímum að því leyti að það eru engar mottur og engin íþróttaföt. Við sitjum bara á stólum. Axlir og slökun eru helstu viðfangsefni tímanna. Mér finnst sjálfri mjög gott að byrja vikuna svona,“ segir Kristín.

Allir eru velkomnir í tímana, þó þeir henti ekki mjög ungum börnum. Kristín segir allskonar fólk mæta, bæði fólk sem vinnur víðsvegar í Hamraborginni sem og fólk sem gerir sér ferð í tímana. Ekki þarf að skrá sig heldur getur fólk bara mætt þegar það á kost á því að koma.

„Við stefnum á að vera með þetta út maí á mánudögum. Svo sjáum við til hvað við gerum í sumar. Það væri mjög spennandi að geta haft tíma úti í grasinu,“ segir jógakennarinn og líffræðingurinn Kristín Harðardóttir.