Makalaus makalaun eða þjófnaður? 


Opið bréf til bæjarstjóra Kópavogs

Ómar Stefánsson
skipar 1. sæti Fyrir Kópavog.

Sæll kæri bæjarstjóri.

Nú hef ég fengið tölvupóst frá embættismönnum bæjarins sem segir í stuttu máli að ég sé ekki aðili máls (væntanlega með úrskurð frá stjórn hins fræga húsfélags) í málinu varðandi makalaunin sem voru í fréttum um miðjan apríl. (Hér er slóð á upprifjun á því máli omarstef.blogspot.is.) Að auki var bréf mitt til bæjarráðs ekki lagt fram heldur voru bæjarfulltrúar upplýstir eins og segir í bréfinu til mín.  Væntanlega af þeim aðilum sem tóku þessa röngu og afdrifaríku ákvörðun.

Ef sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu úrskurðar hjúskaparstöðu látins manns sem að hann sé einhleypur á dánardegi 3.febrúar 2012 þá er engin stjórn húsfélags sem getur ákveðið að hann sé giftur þegar lögmaður krefur Kópavogsbæ um lausnarlaun rúmum tveimur árum eftir andlát eða 13. febrúar 2014. Þetta vitum við báðir og ég hef nú sent bæjarráði, þér og þeim embættismönnum sem hafa verið að vinna í þessum máli ljósmynd af þessu bréfi frá sýslumanninum í tölvupósti.

Þetta eru samtals 1.254.230 krónur eða vel yfir milljón í lausnarlaun.  Ekki veit ég hvort greiddir voru einhverjir vextir á þessa upphæð.  Síðan var jafnframt krafa upp á 3.483.290 krónur sem dánarslysabótakröfu  en Kópavogsbær framsendi til VÍS.  Samtals eru þetta kröfur upp á 4.737.720 krónur.

Ekki er hægt að komast hjá því að sjá að hér er í besta falli um mikil mistök að ræða og í vesta falli einfaldlega þjófnaður úr bæjarsjóði þar sem sem saklausir einstaklingar úr Kópavogi lenda í miklum vandræðum og sitja eftir með skuldir sem Kópavogsbær undir þinni stjórn ber ábyrgð á. Nú er vonandi ekki langt að bíða að ég verði aftur aðili máls. Því nái ég kjöri í bæjarstjórn mun það verða mitt fyrsta verk að fara yfir þetta mál með þér og leiðrétta og laga.

Ómar Stefánsson

skipar 1. sæti Fyrir Kópavog