Á lóðinni fyrir framan Borgarholtsbraut 44 er falleg vindmylla sem vekur athygli vegfarenda. Það eru þau hjónin Sigríður Þorbjarnardóttir og Þórhallur Ásgeirsson, sem eiga og reka gistiheimilið BB44, sem hafa vindmylluna fyrir utan gistiheimilið sitt.
-Af hverju eruð þið með vindmyllu?
„Okkur finnst hún bara svo frábærlega flott! Við sáum hana auglýsta á netinu og fórum alla leið inn í Hvalfjörð til að ná í hana. Svo er hún máluð í Kópavogslitunum og við höfum hana bara hérna til skrauts,“ segir Sigríður. „Gestirnir okkar taka eftir þessu og hún vekur alltaf jafn mikið umtal. Við vitum ekki til þess að það sé önnur vindmylla í Kópavogi en það væri gaman að fá að heyra af því ef svo er.“
-Eruð þið lengi búin að vera með gistihús í Kópavogi?
„Já, það má segja að við séum frumkvöðlar í gistiheimilabransanum í Kópavogi,“ segir Sigriður og hlær. „Við byrjuðum árið 1997 með 5 herbergi á Borgarholtsbraut, löngu áður en skriða ferðamanna til landsins kom af fullri alvöru. Þetta hefur gengið mjög vel hjá okkur en við erum líka með annað gistiheimili á Nýbýlavegi 16 með 10 herbergi. Það er oftast alveg upppantað hjá okkur. Svo rekum við líka bílaleigu með 27 bíla, þannig að það er í nógu að snúast,“ segir Sigriður.
-Hvaðan koma flestir gestir?
„Þeir koma nú frá öllum heimshornum. Í fyrra voru það kannski Norðmenn og Frakkar sem voru mest áberandi en núna eru það Ítalarnir sem minna helst á sig. Hingað koma ferðamenn frá öllum löndum og við kappkostum að láta þeim öllum líða vel og að þeir séu velkomnir hingað í Kópavoginn,“ segir Sigriður Þorbjarnardóttir, eigandi, framkvæmdarstjóri, sölustjóri, matreiðslukona, skúringakona, herbergisþerna og allt í öllu hjá gistiheimilinu BB44 á Borgarholtsbraut.