Rík hefð er fyrir því í Kópavogi að halda þjóðhátíðardaginn hátíðlegan með glæsibrag. Ekki verður brugðið út af þeirri venju í ár, þó að hátíðarhöldin verði með öðru sniði en lengst af. Annað árið í röð ætlum við að efna til hátíðarhalda víðs vegar um bæinn, sem er sami háttur og við höfðum á í fyrra og mæltist einstaklega vel fyrir.
Við héldum upp á 17.júní í fyrra á fimm stöðum í bænum, við Menningarhús bæjarins, í Fagralundi í Fossvogsdal, við Fífuna, við Salalaug og við Kórinn. Þessi breyting út af venjubundnum hátíðarhöldum á Rútstúni var tilkomin vegna samkomutakmarkana vegna Covid, við urðum að endurhugsa hátíðarhöldin og nálguðumst þau með nýjum hætti.
Það er skemmst frá því að segja að íbúar tóku nýbreytninni fagnandi, höfðu margir á orði hversu þægilegt það væri að fara á hátíð í hverfinu, geta labbað á áfangastað jafnvel og notið þjóðhátíðar með afslappaðri hætti en oft áður.
Því verður leikurinn endurtekinn í ár, við bjóðum upp á hátíðarhöld á fimm stöðum í bænum. Hátíðarsvæðin opna á hádegi til að dreifa álagi í hoppi-kastölum og tívolítækjum sem boðið er upp á í Fagralundi, við Fífuna, við Salalaug og Kórinn. Skemmtidagskrá verður milli tvö og fjögur og því líf og fjör á svæðunum góðan hluta úr deginum.
Í Menningarhúsunum verður eins og í fyrra haldið upp á 17.júní í anda húsanna og boðið upp á skemmtun innandyra og utan.
Við undirbúning hártíðarhaldanna höfum við tekið mið af samkomutakmörkunum og sóttvarnarreglum fylgt í hvívetna.
Ég hlakka til að hitta hátíðargesti á þjóðhátíðardaginn. Það er rík ástæða til að fagna að loknum löngum en þó blíðum vetri og gaman að geta átt góða stund saman á 17.júní, þjóðhátíðardegi okkar allra. Gleðilegan þjóðhátíðardag!