Markaðsstofa Kópavogs hefur haft forgöngu um að 2000 þýskir ferðamenn heimsækja Kópavog nú í sumar til að gróðursetja tré í Guðmundarlundi og njóta verslunar og afþreyingar í Smáralind. Um samstarfsverkefni er að ræða milli Hópbíla Teits Jónassonar, Smáralindar, Skógræktar Kópavogs, Kópavogsbæjar og Markaðsstofu Kópavogs.
Á hverjum fimmtudegi í allt sumar munu á bilinu 80-150 þýskir ferðamenn eyða hluta úr deginum í Guðmundarlundi, sem Skógræktarfélag Kópavogs á og rekur, og fræðast um skógrækt á Íslandi. Ferðamennirnir ætla að gróðursetja tvö tré hver á lítilli spildu sem þeim hefur verið úthlutað til uppgræðslu á Vatnsendaheiði, rétt norðan Guðmundarlundar og verða rúmlega fjögur þúsund tré gróðursett í sumar í tengslum við verkefnið. Vonir standa til þess að áframhaldandi samstarf aðila um ferðamenn í Kópavog næstu sumur geti skilað sér í myndarlegri uppgræðsla á svæðinu.
Að lokinni gróðursetningu verður farið með ferðamennina í stærstu verslunarmiðstöð landsins, Smáralind, þar sem þeim gefst færi á að versla og njóta afþreyingar og góðra veitinga.
Áshildur Bragadóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs
markadsstofa@kopavogur.is
s. 570 1578 / 782 1202