Þessa dagana er verið að fara yfir fjörutíu umsóknir sem hafa borist um starf listræns stjórnanda Gerðarsafns. Ráðið verður í starfið til fimm ára í senn. Guðbjörg Kristjánsdóttir lét nýlega af störfum sem forstöðumaður safnsins sem hún gegndi síðustu tuttugu ár. Arna Schram, forstöðumaður Listhúss Kópavogsbæjar, vonast til að hægt verði að kalla umsækjendur í viðtal í næstu viku og kynna nýjan listrænan stjórnanda Gerðarsafns til sögunnar undir lok þessa mánaðar. Verið sé að vinna að stefnumótun fyrir menningarmálin í heild í Kópavogi og þar undir sé einnig Gerðarsafn. Eitt af hlutverkum nýs listræns stjórnanda verði að móta listræna stefnu safnsins til næstu ára. Markmiðið er að auka aðsókn að safninu til muna.
Allur réttur áskilinn. Kópavogsblaðið slf. 2024.