50 ár hjá BYKO

Það heyrir til tíðinda þegar fólk nær háum starfsaldri, sérstaklega þegar starfað hefur verið óslitið hjá sama vinnuveitanda. Gylfi Þór Sigurpálsson fagnaði nýlega 50 ára starfsafmæli hjá BYKO en þar hóf hann ungur störf árið 1969. 

Gylfi Þór Sigurpálsson hefur starfað í 50 ár hjá BYKO.

Gylfi Þór er fæddur á Húsavík 1951 og flutti með foreldrum sínum á Þinghólsbraut í vesturbæ Kópavogs haustið 1968. „Ég vil hvergi annarsstaðar vera en í Kópavogi. Hér hef ég búið ýmist í austurbæ eða vesturbæ ásamt fjölskyldu minni.“ Gylfi er kvæntur Fríðu Björk Pálsdóttur og eiga þau tvö börn, þau Hörpu Dögg og Aron Pál. Harpa Dögg er kvænt Má Viðarssyni og eiga þau eina stelpu en þau eru búsett í Danmörku. Aron Páll er í sambúð með Söru Rakel en þau eru búsett hér í Kópavogi. Þau Gylfi og Fríða eiga köttinn Jasmín sem fer í reglulegar eftirlitsferðir um Álfhólsveginn þar sem þau búa.

Grjótharður Bliki

Leitun er að grjótharðari Blika en Gylfa. Hann mætir á alla leiki hjá strákunum og stelpunum ef hann getur.

„Það var einfalt fyrir mig að skipta um félag þegar ég flutti frá Húsavík á sínum tíma. Þá fór ég bara úr græna búning Völsungs yfir í græna búning Breiðabliks. Ég hef aldrei æft fótbolta en er áhugamaður um allar íþróttir. Þegar bekkjabræður mínir, Basli og Óli Hákonar, byrjuðu í meistaraflokki fór ég að venja komur mínar á völlinn og þá var ekki aftur snúið. Breiðablik er og hefur verið í fararbroddi í uppeldi á knattspyrnufólki eins og sést á öllum atvinnumönnum okkar. Ég er mjög stoltur Bliki og starfaði lengi fyrir Breiðablik í stjórnum og ráðum. Þar kynntist ég mörgu frábæru fólki sem kemur að öllu innra starfi félagsins.“

„Hvurn andskotinn vantar þig?“ 

Í júní árið 1969, þegar Gylfi hóf störf hjá BYKO, var fyrirtækið ekki sama verslunarveldið og það er í dag. „Ég fékk tímabundna vinnu í BYKO hjá Guðmundi H. Jónssyni, stofnanda fyrirtækisins. Þetta áttu bara að vera 1-2 mánuðir því ég var að bíða eftir annarri vinnu. Ég gleymi aldrei fyrsta deginum. Guðmundur sagði mér að ég ætti að mæta í plötuhúsið sem var í Auðbrekku 28. Þar væri maður sem tæki á móti mér. Ég fór þangað, 17 ára, og ekki mjög borubrattur. Þar tók á móti mér maður sem sem hvessti á mig augun og sagði orðrétt: „Hvurn andskotann vantar þig?“ Ég svaraði að ég hefði verið sendur til að vinna og þá spurði maðurinn: „Hvur segir það?“ Það sljákkaði aðeins í karlinum þegar ég sagði honum að Guðmundur H. Jónsson hefði sent mig. Þá bað hann mig að koma með sér að bera plötur. Svona var ég boðinn velkominn til starfa hjá BYKO og það hefur greinilega virkað í öll þessi ár því hér er ég enn.“

Á þessum fyrsta vinnudegi Gylfa voru 15 manns að vinna í föstu starfi hjá BYKO að eigendum meðtöldum. Verslunin var þá við Kársnesbraut og var aðeins 135 fermetrar að stærð.

Fyrstu árin hjá BYKO

„Ég kynntist vel fólkinu í kringum BYKO á Kársnesbrautinni á þessum fyrstu árum, til dæmis þeim Þórði og Helgu á Sæbóli og Dóru, dóttur þeirra, hennar manni, Guðmundi Marínó og börnum. Þau ráku Litaskálann sem var við hlið BYKO og á móti Blómaskálanum. Ég man líka vel eftir fólkinu á Brúarósi og fleirum þarna í nágrenninu og líka eftir gömlu byggingameisturunum sem byggðu upp Kópavog á fyrri tíð.“

Gylfi hefur starfað í nánast öllum deildum hjá BYKO.

Starfsferillinn spannar 50 ár hjá fyrirtækinu og Gylfi hefur víða komið við. 

„Ég hef starfað í nánast öllum deildum fyrirtækisins. Ég hef rekkað timbur; afgreitt timbur, starfað við plötuafgreiðslu, handlangað við byggingu hússins að Nýbýlavegi, ekið sendibíl BYKO í nokkur ár, séð um póstkröfusendingar út á land, unnið á lager, verið í hurða- og parketdeild og starfað sem aðstoðarverslunarstjóri í BYKO á Hringbraut. Síðustu árin hef ég séð um hreinlætistækjadeildina í Breiddinni. Ég er mjög þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast öllu því frábæra fólki sem ég hef unnið með í gegnum tíðina ásamt frábærum vinnuveitendum.“ En hefur það einhverntímann hvarflað að Gylfa að starfa annarsstaðar en hjá BYKO?

„Nei, það hefur aldrei hvarflað að mér. Ég hef reyndar fengið nokkur tilboð í gegnum tíðina en hef alltaf hafnað þeim. BYKO er einstakur vinnustaður með sterka samheild og liðsheild og hér hefur mér alltaf liðið vel. Hér er gott að vera og ég hef alltaf verið ánægður í starfi. Það eru forréttindi að geta sagt það eftir 50 ára starfsferil hjá sama fyrirtækinu.“

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn