6 mánaða uppgjör Kópavogsbæjar
Rekstrarniðurstaða samstæðu Kópavogsbæjar, A og B hluta, var jákvæð um 502 milljónir króna en áætlun ársins gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um átta milljónir króna á þessum tímapunkti.
Ástæða mismunarins er einkum að skatttekjur eru heldur hærri en reiknað var með, verðbólga er lægri en reiknað var með og að bókað er hlutfall söluhagnaðar vegna lóðaúthlutana og sölu á Fannborg 2, 4 og 6, sem ekki var á áætlun.
Þetta kemur fram í óendurskoðuðum og ókönnuðum árshlutareikningi Kópavogs fyrir 1.janúar til 30.júní 2018 sem lagður hefur verið fram í bæjarráði Kópavogs.
„Afkoma Kópavogsbæjar er góð og vel yfir áætlun sem er ánægjulegt og reksturinn gengur vel. Það eru hins vegar teikn á lofti um óróa í efnahagslífinu. Þess vegna er brýnt að sýna aðhald í rekstri og leggja áherslu á niðurgreiðslu skulda,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.
Rekstrarniðurstaða samstæðu fyrir fjármagnsliði, afskriftir og lífeyrisskuldbindingar var jákvæð um 2,6 milljarða króna. Þetta þýðir að framlegðarhlutfall samstæðu þannig reiknað var um 17%, en í reglum frá eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga er gert ráð fyrir að framlegðarhlutfallið sé á bilinu 15-20%.
Þess má geta að á fyrri helmingi árs falla um 48%-49% af skatttekjum ársins en hins vegar stærri hluti útgjalda á ákveðnum sviðum.