Að borða með prjónum

Sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, prestur í Hjallakirkju skrifar.
Sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, prestur í Hjallakirkju skrifar.

Það var víetnamskur flóttamaður sem kenndi mér að borða með prjónum. Við sátum á Kaplaskjólsvegi í stóra húsinu sem hýsti alla flóttamennina sem komu haustið 1979 og borðuðum framandi mat, eða reyndum að borða með misgóðum árangri því að við höfðum aldrei lært að nota matarprjóna. Ég man ennþá eftir móður minni berjast við hrísgrjón og kjötbita og tauta milli samanbitinna tannanna: “Það er ekkert skrítið þó að þetta fólk sé svona lítið, maður nær engu upp í sig með þessum prjónum.”

Ungur maður kraup brosandi fyrir framan mig og sýndi mér hvernig ég átti að halda á prjónunum. Eftir nokkur matarboð til Víetnamanna var ég orðin fljúgandi fær á prjónana. Mamma líka. Þá var ég líka búin að læra að ef ég kláraði af disknum var ég að gefa til kynna að ég væri ennþá svöng. Íslensku borðsiðirnir eru ekki málið í Suðaustur Asíu.

Það voru umtalsverðar tungumálahindranir í þessum boðum. Og mikið brosað. Og örugglega talsvert um gagnkvæman lærdóm.

Svo fluttu allir af Kaplaskjólsveginum og fengu vinnu og smám saman urðu þeir hluti samfélagsins. Og lærðu íslensku.

Þessi hópur kom hingað til lands í september, í þann mund sem skammdegið var að skella á. Þær raddir heyrðust í fjölmiðlum og almennri umræðu að þetta væri hið versta mál, fólkið væri svo ólíkt okkur. Betra væri að hjálpa fólki til að búa nær upprunalegum heimkynnum sínum. Þetta er ekki allskostar rangt. Fólkið sem kom hafði ýmsa siði sem voru ólíkir okkar; það hefði örugglega frekar vilja búa í Malasíu eða Tælandi eða Indónesíu en hér í kuldanum og myrkrinu. En þess var ekki kostur. Flóttamannavandinn var svo gífurlegur að þessar þjóðir gátu ekki tekið við fleirum.

Pabbi var sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum, var í stjórn og hafði farið út til Malasíu að sækja fólkið. Hann tók starfið alvarlega. Pabbi var 200% bjartsýnismaður. Hann sagði alltaf að nýtt fólk myndi auðga menninguna. Flóttamennirnir hefðu örugglega margt fram að færa. Hans von var t.d. að við fengjum etníska veitingastaði svo að landinn hefði annað val en Esjuberg eða Hótel Holt. Þar varð honum að ósk sinni.

Pabbi vissi að það var langhlaup að byggja nýtt líf. Hann hjálpaði fólki að finna vinnu, kaupa húsnæði, gera skattskýrslur. í mörg ár. Um tíma fannst mér einhver koma á hverju kvöldi að leita aðstoðar, yfirleitt um kvöldmatarleitið því að þá var pabbi líklegastur til að vera heima.

Að eiga föður sem var ofursjálfboðaliði þýddi að öll fjölskyldan var munstruð með. Hann vildi kynna íslenska siði fyrir nýja fólkinu. Á fyrstu aðventunni var ein stórfjölskylda drifin í laufabrauðsgerð. Það var árið sem meirihlutinn af laufabrauðinu hafði kínversk tákn. Á aðfangadag kl. 5.30, einmitt þegar hárrétta rjúpnalyktin var komin í húsið, birtist einn víetnaminn með fimm föt af ilmandi mat. Hann vissi að það var stórhátíð framundan. Vissi hins vegar ekki að Íslendingar halda stórhátíðir aðallega með því að loka sig inni með sínum nánustu í stað þess að bjóða sem flestum til veislu. Þetta var sömu jólin og ung víetnömsk stúlka sem var boðin í mat á aðfangadagskvöld reyndi kurteislega að renna niður bita af rjúpu og sagði svo við eftirvæntingarfulla gestgjafana: “Bragðast eins og kjúklingur.” Og brosti.

Áratug síðar var ég í Tælandi og náði mér í bækur um siði þarlendra. Þá laukst upp fyrir mér margt sem okkur hafði þótt undarlegt í fari Víetnamanna. Og ég sá líka hvað þeim hefur þótt við undarleg og dónaleg og hávær. Og mér fannst merkilegt að þrátt fyrir þennan gýfurlega menningarmun skildu þeir flestir hafa ílenst og orðið virkir þegnar. Og vinir okkar.

Mamma og pabbi héldu jólaboð fyrir alla þessa flóttamenn sem komu 1979 og síðar maka og afkomendur í áratugi. Þegar fram leið var þetta eina skipti ársins sem allir hittust aftur.

Fyrir pabba var málið einfalt. Okkur ber að hjálpa öðrum sem manneskjur og sem þjóð í samfélagi þjóða. Það tók mig lengri tíma að skilja þetta. Fyrst vildi ég hjálpa af því að ég væri svo góð, og þetta væri svo gott fólk. Staðreyndin var hins vegar sú að bæði ég og þau vorum manneskjur, stundum góð, stundum leiðinleg. Ef hjálpin hvíldi eingöngu á gæsku minni var hún í hættu daginn sem ég vaknaði í vondu skapi. Ég áttaði mig á að við tökum ekki móti flóttafólki til að sanna gæsku okkar eða vegna gæsku þeirra. Við hjálpum fólki af því að okkur ber að gera það. Af því að við eigum aðild að alþjóðasamfélaginu og höfum undirritað sáttmála um mannréttindi. Og – ef við erum kristin – af því að þetta er boðskapur kristinnar trúar.

Nú stöndum við frammi fyrir nýrri áskorun vegna flóttamanna. Gríðarlega margir hafa lýst sig fúsa til að hjálpa. Það er frábært. Það er gefandi að vera sjálfboðaliði. Við gefum og við þiggjum. Við kennum og við lærum.

Aðrir hafa bent á áskorarirnar. Það þarf að tryggja húsnæði, skóla, aðstoð, sálrænan stuðning. Við viljum gera vel. Sumir benda sérstalega á vandann: fólkið kann ekki íslensku, hefur aðra siði – væri ekki betra að koma á friði heima hjá því? Vissulega væri friður bestur en hann er ekki í sjónmáli. Og meðan svo er ekki er fólk á vergangi í örvæntingarfullri leit að lífi.

Enn aðrir benda á kostnað og það er vissulega rétt að það kostar samfélagið að taka við flóttafólki. En er ekki undarlegt að gera ráð fyrir að sá kostnaður komi í veg fyrir stuðning við aðra sem þurfa á félagslegri þjónustu að halda? Á alþjóðavísu erum við ríkt samfélag. Við getum vel hjálpað.

Það er fyrsta hjálp að skapa öryggi – húsaskjól og mat. Næsta hjálp að styðja fólk í að byggja líf að nýju. Við höfum miklu meiri þekkingu og getu nú en við höfðum árið 1979 þegar við tókum við hópi sem var úr allt öðrum menningarheimi. Hjálp okkar verður aldrei fullkomin, en við getum lagt okkar af mörkum og þar með stuðlað að því að þau sem hafa misst allt geti að nýju eignast líf og von. Og það er mikils virði.


Greinin birtist upphaflega á tru.is, endurbirt í Kópavogsblaðinu með góðfúsu leyfi höfundar.

 

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn