Hvernig breytir maður um lífsstíl ? Bara orðin „breyttur lífsstíll“ eru svo stór að maður verður óttasleginn við að heyra þau. Maður missir máttinn sem var kannski ekki mikill fyrir og ákveður að halda sér bara við gamla lífsstílinn. Þó svo maður viti mætavel að sá lífstíll er ekki endilega að leiða mann þangað sem maður vill fara.
Meðvitund kom mér að stað til að breyta um lífsstíl. Hvað á ég við með meðvitund? Jú, ef þú ert meðvitaður um hvert þú vilt fara þá er auðveldara að finna réttu leiðina. Meðvitundin kviknar og lýsir þér leið eftir að þú svarar samviskusamlega nokkrum spurningum fyrir sjálfan þig. Taktu þér penna og blað í hönd og svarðu þessum spurningum:
1. Hvað vil ég gera í sambandi við heilsu mína ? Eitt eða tvö atriði. Veldu þau stærstu sem þú mögulega ræður við og hefur stjórn á sjálfur.
2. Afhverju vil ég gera þetta fyrir mig ?
3. Hvað þarf ég að gera til að ná þessum markmiðum ?
4. Hvað getur hindrað að markmiðin mín nást ?
5. Get ég með einhverju móti minnkað líkurnar á að hindranir komi í veg fyrir að markmiðin mín náist?
Byrjaðu strax í dag. Lestu spurningarnar hér að ofan og svörin þín á hverjum degi og minntu þannig sjálfan þig á hvað það er sem þig raunverulega langar til. Þegar þú stendur frammi fyrir freistingum. Spurðu þig þá: Er líklegt að þessi freisting hjálpi mér að ná markmiðum mínum?
Þessi aðferð hjálpaði mér.
Ég hvet þig til þess að prófa, 😉
Finni, 35 kílóum léttari