Að þiggja hjálp

Predikun sr. Sunnu Dóru Möller, sóknarprests í Hjallakirkju þann 20. janúar hefur vakið mikla athygli. Við fengum góðfúslegt leyfi til að endurbirta predikunina sem birt er á hjallakirkja.is

Sr. Sunna Dóra Möller, sóknarprestur í Hjallakirkju

Ég las í vikunni sem leið aðgerðaráætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi. Skýrslan inniheldur niðurstöður starfshóps um sjálfsvígsforvarnir sem tók til starfa í október 2017 og skilaði niðurstöðum í apríl 2018.

Þetta er viðamikil skýrsla unnin af fagfólki frá Embætti landlæknis, Heilsugæslunni, Geðhjálp, Sambandi íslenskra sveitafélaga og Landspítalanum.

Í skýrslunni kemur fram að hópurinn hafi verið sammála um að nýta þá umfangsmiklu þverfaglegu og þverstofnanalegu vinnu sem hefur þegar farið fram hér á landi á undanförnum árum og áratugum við að efla geðheilsu og geðheilbrigðisþjónustu. Sú vinna hafi mikla þýðingu fyrir sjálfsvígsforvarnir sem mikilvægt er að viðhalda og styrkja enn frekar.

Starfshópurinn setur í skýrslunni fram tillögur til íslenskra stjórnvalda í 6 liðum sem eiga að styðja hver við aðra til þess að árangur náist til lengri tíma. Tillögurnar taka mið af æviskeiðinu í heild og byggja á gagnreyndum aðferðum, fyrirliggjandi vinnu á sviði heilbrigðis-, mennta- og félagsmála hér á landi og reynslu af  árangursríkum sjálfsvígsforvörnum.

Aðgerðirnar sem settar eru fram í skýrslunni byggja á þeim skilningi að áhættu- og verndandi þættir sjálfsvíga þróist yfir langan tíma í lífi einstaklinga og liggi ekki síður í samfélagslegum þáttum á borð við fjölskyldu- og félagstengslum, menntun og atvinnu.

Tillögurnar 6 eru þessar:

  1. Efling geðheilsu og seiglu í samfélaginu
  2. Gæðaþjónusta á sviði geðheilbrigðis
  3. Takmörkun á aðgengi að hættulegum efnum, hlutum og aðstæðum
  4. Aðgerðum til að draga úr áhættu meðal sérstakra áhættuhópa
  5. Stuðningur við eftirlifendur
  6. Eflingu þekkingar á sviði sjálfsvíga og sjálfsvígsforvarna.

Í skýrslunni er svo hver liður ræddur og sett eru fram undirmarkmið og skilgreint sérstaklega hvaða aðili hjá hinu opinbera beri ábyrgð á innleiðingu og framkvæmd hvers liðar fyrir sig.

Eins og sjá má eru margir kallaðir til ábyrgðar enda um flókið mál að ræða sem verður aldrei leyst með skyndilausnum heldur þarf að vanda vel til verka og leita leiða í átt að heildrænni sýn á vandanum, ef vel á að takast til í þessum erfiða málaflokki sem sjálfsvíg eru.

Þessi skýrsla er einn mikilvægur liður í því lýðsheilsuverkefni að vinna gegn sjálfsvígum í samfélaginu okkar í dag.

Af hverju byrja ég predikun á að tæpa á þessari skýrslu og aðalatriðum hennar?

Jú, við höfum flest okkar orðið vör við umræðuna sem fór af stað í vikunni þar sem Alda Karen Hjaltalín kom fram í viðtali í Íslandi í dag í tilefni af viðburði sem hún var með í Hörpunni á föstudaginn, en í viðtalinu ræddi hún meðal annars sjálfsvígsvandann og lausn við honum sem lægi í möntrunni „Ég er nóg“.

Til að hafa það alveg á hreinu þá er það ekki tilgangur minn hér í þessari predikun að setja út á persónu þessarar stúlku eða tilgang hennar eða tilraun til að láta gott af sér leiða í samfélaginu okkar.

Við þurfum sannarlega á öllum að halda þegar kemur að baráttunni fyrir bættri líðan og geðheilsu, enda er hver manneskja sem fellur fyrir eigin hendi, einni of mikið. Við bætum ekkert með því að setja út á Öldu Karen í opinberri umræðu.

Slíkt er reyndar aldrei til heilla enda er það þannig að þegar við lendum á þeim stað þá fjarlægjumst það sem máli skiptir í umræðunni, sem er málefnið en ekki persónan að baki.

En mig langar samt að deila hér eigin reynslu og nú ætla ég að leyfa mér að vera á persónulegum nótum. Ég deildi því í vikunni að ég ætti dóttur með átröskunarvanda, sem er í raun og veru hægfara sjálfsvíg.  

Við foreldrarnir gerðum okkar besta að vera hvetjandi, jákvæð og segja henni hve frábær hún væri og nógsamleg í þessu lífi.

Vandinn varð okkur, og öllum hvetjandi skilaboðum, yfirsterkari. Dóttir mín lenti inn á barnaspítala Hringsins í haust eftir tvö yfirlið og fór þaðan inn í átröskunarteymi á barna- og unglingageðdeild Landspítalans og hefur verið þar í meðferð síðan í september.

Þar nýtur hún meðferðar sálfræðinga, hjúkrunarfræðinga, lækna, næringarfræðinga og iðjuþjálfa. Þessi margþætta dagskrá er í hverri viku, stundum oftar en einu sinni, oftar en tvisvar.

Af hverju eru svona margir aðilar að meðhöndla þetta ástand dóttur okkar? Jú, af því að vandinn er margþættur og lífshættulegur og engin ein töfralausn eða ,,mantra” til við honum. Það þarf flóknar aðferðir og meðhöndlun til að hjálpa henni að sjá þann sannleika að hún er að sjálfsögðu nóg í þessu lífi.

Við foreldrarnir erum endalaust þakklát fyrir þetta bjargráð sem okkur var gefið í haust sem leið enda er sú gjöf að verða henni til lífs. Við gefum henni heima  ást, umhyggju og jákvæða uppörvun. Fagaðilarnir sjá um að gefa henni réttu tækin til að læra á lífið og komast úr lífshættu.

Þessi skrif mín í vikunni sem leið voru ekki sett fram til að vega að persónu eins eða neins, heldur til að þakka fyrir fagfólkið og aðstoðina sem við fjölskyldan fengum þegar vandinn sem við okkur blasti var ekki á okkar færi að leysa með einföldum hætti.

Annað sem mig langar að nefna er þetta: Dóttir mín þróaði meðal annars sinn sjúkdóm með því að hlusta á mistvitran boðskap og einfaldar lausnir á Netinu, Youtube og Snapchat, þar sem henni var kennt hvað hún mátti borða og ekki borða, hvað mikið af kaloríum, t.a.m. alls ekki meira en 1000 á dag.

Það var ekki fyrr en hún komst til næringarfræðings að hún áttaði sig t.d. á því að mjólk er ekki fitandi! Hún hætti að horfa á þessi myndbönd og eyddi kaloríuappinu í símanum sínum og er nú að ná árangri með fagfólki og ást og umhyggju frá fólkinu sínu.

Þetta vinnur nefnilega allt saman að heildarlausn.

Ég viðurkenni að þetta mál brennur á mér, af því að ég hef persónulega reynslu af því, þegar einfaldur boðskapur og lausnir vinna gegn heilsu og andlegri líðan og skaða frekar en að byggja upp.

Þegar barnið mitt er í húfi og líf þess er valið ekki erfitt. Ég tek enga áhættu, heldur þigg þá aðstoð fegins hendi sem er í boði hjá  fagfólkinu í teyminu hennar sem hefur þekkingu til að bregðast við vegna þess að það hefur menntað sig til að geta hjálpað þegar um þetta flókinn vanda er að ræða.

Þar sem vandinn er ærinn, þegar kemur að geðheilsu, verðum við að gera kröfur í opinberri umræðu, sérstaklega þegar við ræðum um sársaukafullan veruleika á borð við sjálfsvíg og geðraskanir sem ógna lífi og heilsu. Við verðum að spyrja spurninga og vera gagnrýnin á það sem verið er að segja hverju sinni.

Við verðum líka að kunna að tala saman og sýna hvort öðru virðingu ekki síst þegar um ungt fólk er að ræða sem er fullt eldmóði. Það hefur sannarlega sterkan vilja til að láta gott af sér leiða.

Þar birtist ábyrgð okkar sem eldri erum og við megum aldrei beita þöggun eða valdi til að tala fólk niður. Það þarf ekki háa greindarvísitölu til að sjá að það er ekki leiðin til árangurs. Við verðum að leita saman allra leiða sem í boði eru til að vinna gegn sjálfsvígsvandanum og því sem ógnar andlegri heilsu.

Hlustum á fagfólkið sem m.a. hefur unnið greinargóða skýrslu og ég vitnaði í hér í upphafi og hefur ,,klíníska” reynslu af þessu flókna máli. Við þurfum að hlusta á sálfræðinga, lækna, hjúkrunarfræðinga, iðjuþjálfa, lögreglu sem koma að þessum tilfellum, presta sem mæta í sorgarhús til að tilkynna váðtíðindin, foreldra, fjölskyldur, syrgjendur og síðast en ekki síst unga fólkið sem vill leggja sitt á vogarskálarnar til að hjálpa og styðja við.

Enginn boðskapur er gagnslaus en það er heldur ekki til nein töfralausn eða einföld ,,mantra” sem læknar. Ég held að við getum öll sameinast um það án þess að þræta eða deila.

Við þurfum að hjálpast að við að koma þeim skilaboðum áleiðis að hver einasta manneskja sem fæðist í þennan heim er mikilvæg og dýrmæt. Við þurfum öll á hvert öðru að halda í þessu lífi. Enginn er eyland og getur tekist á við vandamálin sín einn og óstuddur.

Við erum nefnilega nóg en stundum erum við líka ekki nóg og megum þannig viðurkenna veikleika okkar og styrkleika gagnvart hvert öðru. Við þurfum ekki að skammast okkar þegar okkur líður eins og við séum ekki nóg. Það er hluti af heilbrigðri sjálfsmynd að eitthvað vanti stundum upp á, sem fólkið í kringum okkur getur jafnvel bætt upp. 

Við megum öll gera mistök. Allt þetta má, því við þurfum ekki bara að stóla á okkur sjálf í þessu lífi. Við eigum fjölskyldu, vini, samstarfsfólk og erum öll hluti af stærra samhengi.

Einmitt vegna þess að við erum stundum nóg og stundum ekki, þá erum við öll óendanlega mikilvæg. Hver manneskja skiptir máli.

Við skulum því gæta vel að hvert öðru, því við erum öll ómissandi.

Amen

Umræðan

Fleiri fréttir

Össur Geirsson er heiðurslistamaður Kópavogs

Össur Geirsson er heiðurslistamaður Kópavogs 2024 og var valið kynnt við hátíðlega viðhöfn í Tónhæð, húsnæði Skólahljómsveitar Kópavogs.  Elísabet Berglind Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Kópavogs og formaður lista- og menningarráðs, afhenti

Brugðist við vopnaburði barna og ungmenna

Flýta á innleiðingu forvarnarverkefnis í KópavogiTala opinskátt um ofbeldi í öllum grunnskólum, frístund og félagsmiðstöðvum barna Menntaráð Kópavogs fjallaði um viðbrögð og forvarnir vegna ofbeldis og vopnaburðar barna og ungmenna

Heitar umræður um merki Pírata

Á aðalfundi Pírata í Kópavogi um liðna helgi var ný stjórn félagsins kjörin. Fundurinn var haldinn samhliða aðalfundum Pírata í Reykjavík, Ungra Pírata og Pírata í Suðvesturkjördæmi líkt og í

Gatnaframkvæmdir hafnar í Vatnsendahvarfi

Framkvæmdir við jarðvinnu og lagnir í Vatnsendahvarfi eru hafnar. Til að halda upp á áfangann tók bæjarstjóri Kópavogs Ásdís Kristjánsdóttir fyrstu skóflustungu að götunni Hæðarhvarfi. Árni Geir Eyþórsson, framkvæmdastjóri Jarðvals

Gamlar fréttir úr sarpinum

Ferðamannavagn_samstarfsaðilar
Rigning á Símamótinu
vatn
Unknown-1-2
Karen
Hjördís Ýr Johnson
kfrettir_200x200
Heilsuefling_mynd_2
WP_20140406_13_13_53_Pro