Að vernda íslenskuna


Karen Elísabet Halldórsdóttir.

Þó svo að lestrargangan sé sannarlega sérstaklega gerð til að gleðja augað og upplifunina í Kópavogsdal, þá er undirtónn hennar mun alvarlegri. Staðreyndin er einfaldlega sú að bóksala dregst með markvissum hætti saman á milli ára og lestur á undir högg að sækja hvert sem litið er. Lestrarátök skólana skila sér ekki í almennum auknum áhuga ungmenna á því að setjast niður og lesa bók. Það er að mörgu leyti skiljanlegt þar sem að aðgengileg afþreying í formi leikins efnis höfðar betur til þeirra sem leita sér dægrarstyttingar.

Það sem er enn alvarlegra er að íslenskan á einnig undir mikið högg að sækja. Það má vel vera að það vilji ekki allir gera „mikið mál“ úr því að málið okkar, sem fámennur hópur í heiminum talar, sé að þynnast út. Það er áskorun að viðhalda íslenskunni og kunnáttu á henni í heimi tækniframfara þar sem meirihluti efnis og afþreyingar er á ensku. Við verðum öll vör við þessar breytingar á umhverfinu og tökum fús þátt í þeim. Það er því kannski ekki furða að börn sem alast upp með gáttina að öllum heiminum í síma eða spjaldi séu að tileinka sér enskt mál jafnvel enn frekar en það sem þau alast upp við í íslensku málsamfélagi. Ekki má gleyma að hér búa orðið mörg þjóðarbrot sem mörg hver eiga erfitt með að tileinka sér okkar snúna mál og því verður áskorunin að viðhalda því enn flóknari.

Ábyrgð fjölmiðla
Fjölmiðlar eru einnig ábyrgir og verða að vanda framsetningu tungumálsins í fréttaflutningi. Slangur og tökuorð, undarleg setningarröð verður því miður meira og meira áberandi í því efni sem sést og heyrist. Íslenskan er erfið og þarf undirrituð með reglulegu millibili að rifja upp stafsetningu, fallbeygingu stigbreytingu og setningaröðun með misgóðum árangri þó.

Ríkisstjórnin er einnig meðvituð vandann sem íslenskan stendur frammi fyrir og hefur ákveðið að heilmikið fjármagn fari í að þýða ýmis tölvuviðmót til þess að vernda tungumálið. Þá hefur verið rætt að lækka virðisaukaskatt á útgáfu bóka. Það er gott og blessað, en sem foreldrar og þegnar verðum við að standa saman og hvetja til lesturs og á einhvern hátt vernda tunguna um leið og við viljum vera hluti af alþjóðlegum tungumálaheimi.   

Það pínir enginn barn til þess að lesa sér til skemmtunar en við getum reynt að vekja forvitni þeirra með góðu fordæmi um leið og við vöndum mál okkar. Ég hvet alla til þess að taka sér smá lestrargöngu um Kópavogsdalinn og njóta útiverunnar um leið.