Vegna yfirlýsingar þriggja einstaklinga sem sæti áttu í stjórn knattspyrnudeildar HK, hefur nú aðalstjórn HK sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:
Á síðasta aðalfundi knattspyrnudeildar voru kosnir 5 aðilar í stjórn knattspyrnudeildar HK. Auk þessara kjörnu fulltrúa eiga setu í stjórn deildarinnar formenn ráða, sem nú eru Meistaraflokksráð karla, HK-Víkingur og Barna- og unglingaráð. Á aðalfundinum var kynnt að enginn formaður væri í meistaraflokksráði karla og var stjórn deildarinnar falið að skipa slíkan en fyrri formaður meistaraflokksráðs var kjörinn formaður knattspyrnudeildar á fundinum.
Þrátt fyrir þessa staðreynd sótti einstaklingur fund knattspyrnudeildar í nafni Meistaraflokksráðs karla og greiddi atkvæði í nafni meistarflokksráðs karla til að tryggja umdeildu máli brautargengi á fundi 14. apríl síðastliðinn. Við sama tækifæri var þeirri skoðun hluta stjórnar lýst að enginn færi með atkvæði fulltrúa meistaraflokksráðs kvenna vegna þess að þar sem um væri að ræða samstarf við Víking væri ekki rétt að slíkur fulltrúi ætti kosningarétt í knattspyrnudeild HK. Tillaga borinn upp af formanni var samþykkt með eins atkvæðis mun.
Sama dag átti aðalstjórn fund með stjórn knattspyrnudeildar til að inna eftir starfsemi deildarinnar, þar á meðal fjárhagsáætlun. Kynnt voru ófullburða drög að áætlun en deildarstjórn var við svo búið gefinn ríflegur frestur til að ljúka gerð hennar. Að loknum frestinum var ekki efnt til fundar stjórnar deildarinnar en þess í stað höfð uppi ráðagerð um rafræna atkvæðagreiðslu innan deildarstjórnar um fjárhagsáætlunina án kynningar á forsendum áætlunarinnar. Varaformaður, gjaldkeri og formaður barna- og unglingaráðs töldu sér ekki fært að standa svona að verki og sögðu við svo búið af sér auk þess sem fulltrúi meistaraflokksráðs kvenna, HK/Víkings hefur lýst því yfir að hann treysti sér ekki til að sækja deildarfundi.
Þar með var sú staða uppi að það vantaði 5 af 8 stjórnarmönnum sem sæti eiga í stjórn knattspyrnudeildar samkvæmt lögum HK. Þrátt fyrir mannkosti og dugnað þeirra stjórnarmanna sem eftir voru er slík stjórn hvorki lögmæt né ályktunarbær. Við þeim aðstæðum varð aðalstjórn að bregðast. Leitað var ýmissa leiða til lausnar. Eftir mikla ígrundun, viðræður og sáttatilraunir milli aðila um nokkurra vikna skeið varð niðurstaðan sú að eina færa leiðin samkvæmt lögum félagsins væri að skipa bráðabirgðastjórn yfir deildinni eins og kynnt hefur verið.
Einn meðlimur aðalstjórnar HK var skipaður formaður deildarinnar og falið að finna fólk sér til fulltingis. Jafnframt var um leið bókað að hún tæki sér leyfi frá störfum fyrir aðalstjórn félagsins á meðan á þessu stæði enda kemur skýrt fram í lögum félagsins að sami aðili geti ekki gegnt tveimur embættum fyrir félagið í einu. Þeir 3 stjórnarmenn sem eftir sátu tilkynntu að þeir færðu sig í Meistaraflokksráð karla og að fyrri formaður deildarinnar yrði formaður Meistaraflokksráðs. Komu þau því ekki til álita í bráðabirgðastjórn félagsins enda má enginn aðili gegna fleiri embættum en einu í félaginu. Haft var samband við fjölda félaga vegna mögulegrar stjórnarsetu í knattspyrnudeild og rúmri viku síðar hefur verið stofnuð bráðabirgðastjórn 5 valinkunnra aðila sem, utan eins, hafa ekki setið í stjórn knattspyrnudeildar áður. Auk þessara aðila sitja í stjórn deildarinnar, eins og fyrr segir, formenn ráða, þ.á m. fyrrum formaður knattspyrnudeildar.
Aðalstjórn félagsins harmar að þær aðgerðir sem grípa þurfti til með hagsmuni knattspyrnudeildar og félagsins alls að leiðarljósi skapi ólgu og sundrung í deildinni. Allir meðlimir bráðabirgðastjórnar hafa lýst því yfir að þeir geri sitt allra besta í að starfa fyrir deildina í heild af heilindum og með sem mestu samstarfi við öll ráð undir deildinni og þá tæplega 800 iðkendur sem stunda knattspyrnu undir merkjum félagsins, í meistaraflokkum karla og kvenna sem og í yngri flokkum. Stefna stjórnar knattspyrnudeildar er að leikmenn félagsins séu í fremstu röð á öllum sviðum. Þess ber að minnast að félag er aldrei sterkara en félagarnir sem í því eru og ber alltaf að taka heildarhagsmuni félags fram yfir persónulega hagsmuni einstakra félagsmanna.
Að öðru leyti mun aðalstjórn HK ekki tjá sig um mál þetta á opinberum vettvangi enda er um innanfélagsmál að ræða sem ber ekki að leysa í fjölmiðlum.