Fyrir nokkrum árum var ég að leita að sjálfri mér. Eitt sinn fór ég á stað þar sem hópur fólks var saman komin að reyna læra að þekkja sjálfan sig. Þar var stelpa um tvítugt, ótrúlega sæt og blómstrandi. Hún sagði við mig: „Þú veist Sigga, að þú hefur alltaf val. Þú getur valið eymdina, eða þú getur valið fegurðina.“ Ég hnussaði yfir þessu. Hvað heldur hún eiginlega að hún viti um það? Hún er bara lítil sæt stelpa. Hefur örugglega aldrei þurft að losna við aukakíló! Mér fannst ég ekkert hafa neitt val. Ég byrjaði alltaf í megrun á mánudegi og borðaði nammi á miðvikudegi. Féll. Vonlaust. Ég hafði ekkert val að mér fannst. Þetta bara gerðist.
Mér fannst ég heldur ekki hafa val þegar ég vaknaði á morgnanna. Það var snjór marga mánuði á ári (samt valdi ég að búa á Íslandi) og ég þurfti að skafa bílinn. Ég þurfti líka að hlusta á kennarann upp í Háskóla rausa um eitthvað sem ég hafði ekki alltaf áhuga á. Samt valdi ég að taka þetta nám.
Í morgun vaknaði ég. Ég vaknaði við væl í kettinum. Honum leiðist yfirleitt einn frammi og byrjar iðulega að væla við sólarupprás. Ég strunsaði fram og sussaði í honum. Kallaði hann asna og langaði að dingla aðeins í hann í leiðinni. Ég hitti bara ekki, hann var of snöggur. Ég fann gremjuna og neikvæðu tilfinningar blossa upp. Ég ætlaði að byrja þennan fallega og dásamlega dag á þennan hátt. En þá flaug
þessi setning upp í huga mér.
„Sigga, þú hefur alltaf val.“
Ég leit út um gluggann og sá þetta líka fallega veður. Dóttir mín samkjaftaði við sjálfa sig í rúminu og skellihló. Hún hafði greinilega valið að gera daginn góðan. Ég ákvað því að gera það líka.
Ég hef algjört vald yfir hvernig ég bregst við. Vá, hvað það er dásamlegt. Að enginn annar geri það fyrir mig. Ég ræð. Skemmtilegt!
En það sem ég er að deila hérna með ykkur er að: Valið er máttugt.
Einu sinni valdi ég að borða ekki morgunmat. Ég borðaði svo samloku og gos í hádegismat. Svo valdi ég mér kleinu og kókómjólk í kaffitímann. Ég valdi svo að fá mér pizzu í kvöldmat. Eftir kvöldmat valdi ég oft að fara út í búð að kaupa bland í poka fyrir svona 300 kall. (Sem var mikið þá). Síðan valdi ég að líða alveg hörmulega yfir örlögum mínum yfir daginn.
Ég var svo mikið krútt!
Ég vissi bara ekki að ég hafði val.
Í dag vel ég yfirleitt að borða hafragraut eða morgunkorn í morgunmat. Ég vel að taka inn vítamínin mín og byrja daginn á andlegri vinnu fyrir sálartetrið mitt. Ég vel oft að vera kærleiksrík við mína nánustu og þá sem verða á vegi mínum. Ég vel að borða ekki nammi á hverjum degi. Af hverju vel ég þetta? Af því mér þykir vænt um mig.
Þá komum við aftur að fortíðinni minni. Mér finnst gaman að rifja þetta upp. Það minnir mig á hversu miklu ég hef náð að afreka. Ég valdi óhollt líferni (bæði fyrir sál og líkama) af því mér þótti ekkert sérstaklega vænt um sjálfa mig. Ég talaði að minnsta kosti ekki vel til mín. Ég hefði aldrei talað svona illa um nokkra aðra vinkonu eins og ég talaði til mín. Það segir mér að mér þótti ekkert voðalega vænt um mig.
Ég sleppti stundum að bursta tennurnar. Ég valdi að spenna ekki beltið. Ég valdi að úða í mig súkkulaði. Ég valdi að sleppa hreyfingu. Ég valdi að hugsa neikvætt. Af hverju? Af því mér þótti ekki vænt um mig. Það segir mér að ég hafði litla sjálfsvirðingu.
Sjálfsvirðingin. Eitt af mikilvægustu hugtökunum. Að bera virðingu fyrir sjálfum sér. Um leið og ég ber virðingu fyrir sjálfri mér þá fer ég ósjálfrátt að bera virðingu fyrir öðrum.
Prófið að rækta sjálfsvirðinguna í dag. Það er æði. Talið fallega til ykkar. Gerið hluti sem gerir ykkur gott. Finnið hvernig þið verðið
sterkari.
Njótið þess að vera þið með ykkur sjálfum. Hafið það gott. Takk fyrir að lesa.
Rosalega mikill kærleikur inn í daginn frá mér.
Ykkar Sigga.
Heilbrigð heilsuráðgjöf er hér á Facebook