-Karen Elísabet Halldórsdóttir formaður Lista- og menningarráðs Kópavogs, skrifar:
Lista- og menningarráð hefur nú til umfjöllunar tillögu Péturs Ólafssonar um hvort hægt sé að nýta gömlu undirgöngin við Digranesveg betur frekar en að hafa þau lokuð, engum til ánægju eða sýnis.
Ráðið fór í vettvangsferð á dögunum til að kynna sér möguleika gangnanna. Veggirnir eru vandlega skreyttir ýmsu sem sumir kalla grafítí list en aðrir veggjakrot. Göngin eru órjúfanlega tengd vissu tímabili sem kennt er við pönk. Margir vilja meina að vagga pönksins sé einmitt í Kópavogi, enda spruttu margar flottar hljómsveitir úr jarðvegi vogsins sem náðu athygli margra og starfa jafnvel enn og má þá nefna Fræbblana sem dæmi.
Allir nýtingarmöguleikar kosta hinsvegar töluverðar fjárhæðir vegna öryggisreglna sem þarf að fara eftir. Slíkar útfærslur á algerlega eftir að ræða og meta. Hins vegar vill lista- og menningarráð hafa bæjarbúa með í ráðum um hvað sé hægt að líta til í framtíðinni og verður auglýst eftir tillögum á vef Kópavogsbæjar innan tíðar.
Í vettvangsferð lista- og menningarráðs á dögunum, vakti athygli mína lítið torg sem er staðsett fyrir framan göngin og neðan við Héraðskjalasafnið (gamla pósthúsið). Þarna er skjólsælt og fallegt um að lítast þó svo að það mætti nú alveg halda því betur við. Þetta torg er algerlega vannýtt vegna þess að engin starfsemi er í kringum það til að draga fólk þangað til að tylla sér á góðviðrisdögum. Torgið er í beinu framhaldi af þeim hluta gangnanna sem er opinn.
Það er ekki erfitt að sjá fyrir sér heilmikið líf á þessu torgi ef rétt væri að staðið. Þar má nefna útileikhús, smásölur og ýmsar uppákomur.
Samningur við Listaháskóla Íslands.
Nýverið undirritaði Kópavogsbær samning við Listaháskóla Íslands (LHÍ) um að útskriftarnemar sýni lokaverkefni sín í Gerðarsafni. Þessi samningur býður upp á marga möguleika. Með þessu erum við að laða framtíðarlistamenn Íslands til Kópavogs í því skyni að efla menningarlífið sem og að fá ungt og efnilegt listafólk til að festa örlitlar rætur við lista- og menningarstofnanirnar okkar. Nemendur LHÍ voru varla fyrr búnir að sjá glæsileg salarkynni Gerðarsafns þegar hugmyndaflugið fór af stað um að nýta alla torfuna undir útskriftarverkefnin. Í beinu framhaldi af þessu hefur áhugi vaknað um að halda ámóta samningaviðræðum áfram við LHÍ um að útskriftarnemendur í söng og tónlist flytji lokaverkefnin sín í Salnum. Þær samningaviðræður standa yfir og lofa góðu fyrir fjölbreytt menningarlíf í Kópavogi.
Framundan.
Framundan hjá lista- og menningarráði eru ýmis verkefni. Núna höfum við auglýst eftir styrkumsóknum úr lista og menningarsjóði og verður án efa skemmtilegt að vinna úr þeim fjölbreyttu hugmyndum sem koma iðulega á hverju ári. Skipulagning Ljóðahátíðar Jóns úr Vör er fastur liður á hverju ári í Kópavogi og er ætlunin að halda áfram að þróa og bæta við þann atburð sem er nánast einstæður á Íslandi. Kópavogsdagar verða sem fyrr í maí, og er einnig undirbúningsvinna við þá afmælishátíð bæjarins þegar hafin. Ætlunin er að efla Kópavogsdaga með ýmsum breytingum. Það er mikill áhugi hjá Lista- og menningarráði að fá fyrirtæki í Kópavogi til þess að taka meiri og öflugri þátt í Kópavogsdögunum. Með slíkum samlegðaráhrifum er vakin athygli á fjölbreyttu atvinnu- og fyrirtækjaumhverfi í Kópavogi sem og menningarstofnunum Kópavogs ásamt þeirri listsköpun sem hér býr hjá einstaklingum og félögum. Lista- og menningarráð hefur mikinn áhuga á að starfa með nýstofnaðri Markaðsstofu Kópavogs að slíkum hugmyndum.