Af hetjum og skúrkum í Kópavogi og víðar

Gústaf Gústafsson
Gústaf Gústafsson

Konan mín er hetja. Hún er svona kvenkyns Hrói höttur, nema hún stal ekki og mér virðist vondu karlarnir stjórna ennþá í spillta ríkinu. Íslenska réttarríkið stóðst ekki áhlaup pólitískra misyndismanna og spilltra embættismanna. Hetjan mín náði þó að bjarga hluta af fjármunum ellilífeyrisþega frá svikamyllum og Ponzi ráðabruggi siðblindra bankamanna, fjárfesta og getulausra eftirlitsaðila. En henni var refsað fyrir það einkar harkalega. Hún þurfti að upplifa skömm og svívirðingar, lygar og aðdróttanir. Og í rúm þrjú ár var hún föst í dómsmáli sem Fjármálaeftirlitið (FME) höfðaði gegn henni og stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar (LSK). Fyrir að lána Kópavogsbæ (ábyrgðaraðila sjóðsins) fjármuni í formi peningamarkaðslána í því markmiði að koma þeim í öruggt skjól þegar fjármálakerfið á Íslandi hrundi.

Hún stóð keik allan þennan tíma, í gegnum smánarlega uppsögn, yfirheyrslur og opinbera aftöku á mannorði hennar og starfsferli. Ég segi ekki að hún hafi farið létt með það, því það er ekki svo. Þó held ég að vissa hennar yfir því að hafa gert rétt hafi hjálpað mikið. En tré festu hennar brotnaði aldrei, eins og Vilhjálmur Vilhjálmsson orðaði svo fallega í texta sínum. Margir hafi bugast við minna.

Hún var útilokuð frá starfi fyrir fjármálastofnanir og fyrirtæki á Íslandi, sem er skringilegt í ljósi þess að afrek hennar tala sínu eigin máli og mega lífeyrisþegar í þeim sjóði sem hún fór fyrir þakka það. Hún reyndist þeim góður starfskraftur. Að sama skapi var það gott fyrir íbúa í Kópavogsbæ, verandi ábyrgðaraðilar þeirra fjármuna. Ísland væri betur statt í dag hefðu fleiri tekið hagsmuni skjólstæðinga sína fram yfir eigin.

En hún fékk engar þakkir fyrir framsýni sína og hæfni í starfi. Þvert á móti. Því fulltrúar FME voru staðfastlega þeirra „skoðunar“ að peningamarkaðslán væru ólögleg milli lífeyrissjóðs og sveitarfélags, eða svo sögðu þeir. Eða kannski voru þeir bara ósáttir við að hún skyldi ekki sýna sömu hjarðhegðun og þeir blessuðu annar staðar. Þegar fulltrúar FME voru beðnir um að skilgreina „peningamarkaðslán“ í sama dómsmáli frammi fyrir dómara gátu þeir það ekki. Enda komst dómurinn að því að það var ekkert ólöglegt við lán LSK til Kópavogsbæjar. Þvert á móti hafi það reynst frábærlega vel fyrir lífeyrissjóðinn.

Það er með öllu óskiljanlegt hvers vegna FME ákvað að taka yfir starfsemi LSK á sínum tíma nema skýringa sé að leita í pólitík. Reyndar var aftakan undirrituð af þáverandi fjármálaráðherra og formanni VG. Fjölda mörg vafasöm dæmi úr sögu lífeyrissjóða þjóðarinnar má finna fyrir og eftir hrun, en aðgerðir FME og stjórnvalda voru þar með allt öðrum hætti. Dæmi eru um að óhæfir stjórnendur stýri fjárfestingum lífeyrissjóða jafnvel enn í dag, aðilar sem hafa ekki verið metnir hæfir af FME, þó svo hæfismat FME verði að teljast vafasamt miðað við þeirra eigið hæfi eins og dæmin sanna. Því miður fyrir íslenska þjóð. Og mörg dæmi eru um verulega vafasamar og jafnvel ólöglegar fjárfestingar. En þar er enginn að verja réttindi lífeyrisþega. Sjálfur þáverandi dómsmálaráðherra bar ábyrgð á tuga og jafnvel hundruða milljarða tapi sem forsvarsmaður stærsta lífeyrissjóðs landsins. Nema náttúrulega stjórnarmenn lífeyrissjóða beri enga ábyrgð?

Sigrún Ágústa Bragadóttur, eiginkona Gústafs og fyrrum framkvæmdastjori Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar.
Sigrún Ágústa Bragadóttir.

Konan mín var á endanum hreinsuð af öllum ásökunum um ólöglegar lánveitingar en dæmd var smásekt fyrir dagsetningu á stöðu fjárfestinga í bréfi til FME. Hún átti að hafa vísvitandi blekkt FME með því að dagsetja fjárfestingar í bréfi miðað við ársuppgjör en ekki nokkrum dögum síðar þegar það var sent. Kannski má deila um hvort er eðlilegra, að miða upplýsingar sem sendar eru í byrjun árs við áramót, þann 1. janúar eða sem dæmi þann 6. janúar. En þetta var öll sökin. Dagsetning bréfsins þótti villandi. Ekkert var þó efnislega rangt í bréfinu, eins ruglingslega og það hljómar.

Eftir sátu ákærendur með málaferli sem tók hátt á fjórða ár og tugi milljóna, algerlega sneyptir og vitandi ekki fyrir hvað var ákært. Enn hefur engum fjölmiðli dottið í hug að velta þessu fyrir sér af alvöru. En það er stórmerkilegt að ráðast að þeim aðila sem reyndi að bjarga eignum lífeyrisþega í stað þess að skoða þá sem töpuðu svo ævintýralegum upphæðum að ellilífeyrisþegar bíða þess vart bætur. Hver var að vinna vinnuna sína og hvern ætti að kæra? Því verður seint svarað af þeim sem sök eiga.

En tilgangi ákærunnar var náð, breytingar urðu í pólitísku umhverfi í Kópavogsbæ.

Þó undirréttur hafi verið skýr að því leiti að hann sýknaði konuna mína af þeim atriðum sem skiptu einhverju máli, þá sat eftir þessi smásekt sem var mjög í ósamræmi við það sem við vissum um málið. Því óskaði konan mín eftir því að málinu yrði vísað í hæstarétt. Hún vildi sem sagt vandaðari málsmeðferð enda má segja að starfsferill og mannorð hennar á Íslandi hafi verið í veði. En þeirri beiðni var hafnað því hagsmunir þóttu ekki nægir. Það þótti ekki nóg að mannorð hennar var svívirt á opinberum vettvangi og það þótti ekki nóg að henni var útskúfað frá starfsferli sínum. Það þótti ekki nóg að hún tapaði tugum milljóna á óvönduðum vinnubrögðum opinberra aðila. Það sem skipti máli var að sektin var svo lág. Sektin var bara pínulítil af því brotið skipti engu máli. Það var því undirréttur sem ákvarðaði hvort málið fengi að fara í hæstarétt, eins skringilegt og það virðist gagnvart leikmanni. Mér er næst að halda að þessi smásekt hafi verið sett þarna inn til þess að reyna að koma í veg fyrir skaðabótamál gegn ríkinu, en þó haldið svo lágri að málið teldist ekki dómtökubært í hæstarétti. Sniðugir, eða kannski hagsmunatengdir?

Málið tók langan tíma og inn í það fléttuðust alls kyns hlutir. Þáverandi bæjarlögmaður Kópavogsbæjar reyndi að hafa áhrif á vitnisburði gegn fyrrverandi stjórnarformanni sjóðsins og sérstakur saksóknari vildi ekkert með þessi mál hafa, þrátt fyrir beinharðar sannanir um óeðlileg og glæpsamleg afskipti stjórnmála- og embættismanna.

Fyrir stuttu síðan sendi hetjan mín bréf til bæjarstjórans í Kópavogi og óskaði eftir aðstoð við að greiða lítinn hluta af þeim kostnaði sem hún hafði orðið fyrir í þessu máli. Bæjarlögmaður, sem gat ekki einu sinni skrifað nafnið hennar rétt, komst að því að hún hafi bara alls ekki verið starfsmaður Kópavogsbæjar og því bæri sveitarfélaginu ekki að standa með þeim ákvörðunum sem sveitarfélagið sannarlega tók, þ.e. að ákveða að sjóðurinn lánaði sveitarfélaginu fjármuni. Eins skrýtið og það er þá er þetta álit í ansi skringilegu ósamræmi við alla launaseðla konunnar minnar frá sveitarfélaginu Kópavogsbæ.

Í stað þess að standa með ákvörðunum sveitarfélagsins þá ákváðu forsvarsmenn Kópavogsbæjar að leka bréfinu snarlega í fjölmiðla og sömu leið fór álit lögmannsins, því þarna er væntanlega tækifæri til þess að koma enn einu höggi á pólitískan andstæðing. Í ljósi annarra mála þá kemur það reyndar ekki á óvart. Sú ákvörðun dæmir sig sjálf og er þeim sem sök eiga til mikillar skammar.

Skúrkar lifa góðu lífi á Íslandi. En hetjurnar þurfa að lifa með sannfæringu sinni og þeim sektum sem því fylgir.

Það er því ekkert annað eftir en að óska sjóðsfélögum í Lífeyrissjóði starfsmanna Kópavogsbæjar til hamingju. Ykkar Hrói höttur mun vart bíða þess bætur.

-Gústaf Gústafsson

 

[do_widget „Custom Recent Posts by Tags“]

 

Umræðan

Fleiri fréttir

Gnitaheiði er gata ársins

Bæjarstjórn Kópavogs velur götu ársins og er Gnitaheiði 30. gatan í Kópavogi til þess hljóta nafnbótina. Íbúar í götunni komu saman af tilefninu og Orri Hlöðversson, formaður bæjarráðs í Kópavogi

Flautukórinn í frægðarför

„Við komum heim með fullt af gulli, silfri og bronsi rétt eins og á Ólympíuleikunum,” segir kampakát Pemela De Sensi, flautukennara Tónlistarskólans í Kópavogi. Flautukór kórsins lagði nýverið Sikiley á

Líf og fjör á Hamraborgarhátíð

Agnes Ársælsdóttir er myndlistarmaður og sýningarstjóri Hamraborgarhátíðarinnar í ár. Agnes útskrifaðist með BA gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2015 en stundar nú nám í sýningastjórnun við Háskóla Íslands. Agnes sýndi

Gunnar Helgason.

Bókasafn Kópavogs í haust

Haustið ber með sér rútínu, kertaljós og appelsínurauða tóna, en á Bókasafni Kópavogs er dagskráin að fara í gang með vinsælum viðburðum fyrri ára í bland við nýja og spennandi

Gamlar fréttir úr sarpinum

Theodóra Sigurlaug Þorsteinsdóttir
Skak
Jófríður Hanna Sigfúsdóttir, formaður Starfsmannafélags Kópavogsbæjar.
ygalleri
MK utskriftarnemar haust 2014
Gunnlaugur Björnsson
bjorn
2014-04-04-10.09.54-299×347
103