Niðurstaða umhverfissviðs við yfirferð tilboða í útleigu á líkamsræktaraðstöðu við sundlaugar Kópavogs var lögð fram á fundi bæjarráðs Kópavogs í vikunni. Eins og kunnugt er bárust tvö tilboð í útboðinu.
Tilboð Gym heilsu hf var metið ógilt við yfirferð umhverfisráðs, að því er fram kemur í fundargerð bæjarráðs og er það ekki rökstutt þar frekar. Tilboð Lauga ehf. uppfyllti ekki kröfur útboðsgagna um ársreikninga um að með tilboði skuli leggja fram ársreikninga félagsins fyrir árin 2012 og 2013, yfirfarna og endurskoðaða af endurskoðanda.
Deildarstjóri framkvæmdadeildar Kópavogs leggur til að tilboði Lauga ehf. verði hafnað og að útleiga á líkamsræktarstöðvum við sundlaugar í Kópavogi verði boðin út að nýju. Tillagan verður lögð fyrir framkvæmdaráð á næsta fundi þess, að því er fram kemur í fundargerð bæjarráðs.
