Breiðablik mætir á morgun Aktobe frá Kasakstan í seinni leiknum í þriðju umferð undankeppni Evrópudeildarinnar á Laugardalsvelli, klukkan 20. Fyrri leik liðanna í Kasakstan lyktaði með sigri Aktobe 1:0 eftir vægast sagt vafasama vítaspyrnu sem dæmd var á Breiðablik á síðustu mínútu leiksins. Bragi Brynjarsson, eldheitur stuðningsmaður Breiðabliks, hefur mjög ákveðnar skoðanir á liði Aktobe.

„Þetta eru drullusokkar. Þeir nota „dirty tricks“ út um allan völl og láta sig detta og reyna pirra andstæðinginn. Það er í gangi núna kæra gegn þessu liði. Þeir mættu áður norsku liði en yfirvöld í Kasakstan neituðu tveimur bestu leikmönnum þess um vegabréfsáritun til landsins svo þeir gátu ekki tekið þátt í leiknum. Þetta er allt svona. Svo vildu þeir ekki spila leikinn gegn okkur á Kópavogsvellinum heldur frekar á Laugardalsvelli. Til samanburðar leika FH-ingar í Kaplakrika gegn andstæðingum sínum frá Vín, það var bara ekkert mál. Þessir gaurar frá Kasakstan eru allt öðruvísi og langt frá því að vera heiðarlegir.“
-En er ekki allt í lagi að spila á Laugardalsvellinum?
„Jújú, ekkert mál með það. Þeir eru bara að búa til vesen. Heimta flóðljós og eitthvað svona rugl. Skiptir engu máli þó leikurinn fari hér fram í miðnætursól og að leikurinn verður sýndur í beinni í Kasakstan – en þá verður klukkan 1 um nótt. Þetta er sálfræðistríð og þeir svifast einskis.“
-Það er mikið í húfi?
„Já, þetta er mjög mikilvægur leikur – ef ekki einn sá mikilvægasti í sögu Breiðabliks. Ég vil hvetja alla Kópavogsbúa – og í raun alla unnendur knattspyrnu á Íslandi – til að fjölmenna á Laugardalsvöllinn annað kvöld og hvetja Blikana áfram. Sýnum þessum Kasakstönum hvar Davíð keypti ölið,“ segir Bragi Brynjarsson, eldheitur stuðningsmaður Breiðabliks.