Álfhólsskóli Íslandsmeistari í skák, þriðja árið í röð

Íslandsmeistarar í skák, þriðja árið í röð.
Íslandsmeistarar í skák, þriðja árið í röð.

Álfhólsskóli fór með sigur af hólmi í Íslandsmóti barnaskólasveita í skák um helgina en 49 sveitir tóku þátt í mótinu. Fyrirfram mátti búast við nokkrum sveitum í toppbaráttunni. Það kom á daginn að eftir fyrri keppnisdag voru margar sveitir við toppinn en Íslandsmeistararnir í Álfhólfsskóla höfðu þó tveggja vinninga forskot á Hraunvallaskóla og Rimaskóla.

Í sjöttu umferð mættust Álfhólsskóli og Hraunvallaskóli. Álfhólsskóli vann þá viðureign 3-1 eftir þónokkrar sviptingar. Í sjöundu umferð lögðu þeir svo aðra hönd á bikarinn með sannfærandi sigri á Rimaskóla 3-1. Hörðuvallaskóli hefur á að skipa harðskeyttri sveit leiddri áfram af Vigni Vatnari Stefánssyni. Sveit skólans náði einum og hálfum vinningi af Álfhólsskóla í áttundu og næstsíðustu umferð og setti þar með mikla spennu í mótið þar sem Rimaskóli vann sína viðureign 4-0.
Fyrir lokaumferðina hafði því Álfhólsskóli einn og hálfan vinning í forskot á Rimaskóla. Erfitt verkefni beið Álfhólsskóla í síðustu umferðinni þegar sveitin tefldi við Ölduselsskóla sem hefur á að skipa sterkri sveit og sérstaklega eru efstu tvö borðin sterk með Mykael Kravchuk og Óskar Víking Davíðsson. Fór svo að Óskar vann sína skák og kom Ölduseli þannig yfir í viðureigninni. Taugar Álfhólsskólamanna héldu þó vel og höfðu þeir viðureignina 2,5-1,5, sem dugði til sigurs.
Álfhólsskóli er því Íslandsmeistari barnaskólasveita 2014 og það þriðja árið í röð. Sveit Rimaskóla varð í öðru sæti og vann sér þannig rétt til þátttöku á Norðurlandamóti barnaskólasveita rétt eins og Álfhólsskóli en keppnin fer fram á Íslandi í haust. Hörðuvallaskóli tók svo bronsið eftir harða baráttu. Munar þar mikið um árangur Vignis Vatnars sem tapaði aðeins hálfum vinningi niður.
„Álfhólsskóli er vel að sigrinum kominn. Gríðarlega gott utanumhald er um alla skákiðkun og kennslu í skólanum. Metnaðarfullir skákmenn, sterkur foreldrahópur og svo er Lenka Ptacniková einstakur þjálfari sem á mikinn heiður skilið fyrir framlag sitt til skákuppbyggingar í Kópavogi. Sveitin mun endurnýjast töluvert á næsta ári en Felix Steinþórsson og Guðmundur Agnar Bragason tefldu nú á sínu síðasta Íslandsmóti barnaskólasveita. Þeir kappar hafa heldur betur skilað sínu á síðustu árum,“ segir í frétt á vef Álfhólsskóla.
Íslandsmeistarar Álfhólsskóla
1. Felix Steinþórsson
2.  Guðmundur Agnar Bragason
3. Halldór Atli Kristjánsson
4. Róbert Luu
Liðstjóri: Lenka Ptácníková

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn