Fundi samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem fer með samningsumboð Kópavogsbæjar, og samninganefndar Starfsmannafélags Kópavogs hjá Ríkissáttarsemjara var slitið eftir árangurslausar viðræður í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kópavogsbæ.
Ástæða viðræðuslita er ófrávíkjanleg krafa Starfsmannafélags Kópavogs (SfK) um að sérákvæði um háskólamenntaða félagsmenn Starfsmannafélagsins verði áfram hluti af kjarasamning Starfsmannafélags Kópavogs við Kópavogsbæ. Á það fellst Kópavogsbær ekki.
Í sérákvæðinu, svonefndri háskólabókun, felst að háskólamenntaðir starfsmenn innan SfK fái laun samkvæmt kjarasamningum háskólamanna. Þetta sérákvæði er þannig brot á þeirri meginreglu á vinnumarkaði að félagsmenn stéttarfélaga greiði fyrir hagsmunagæslu til stéttarfélags síns og felur þannig í sér ójafnræði gagnvart stéttarfélögum. Ekki er að finna sambærilegt ákvæði í neinum öðrum kjarasamningi á landinu. Ákvæðið varðar tæplega 20 af um 800 félagsmönnum SfK.
Kópavogsbær hvetur Starfsmannafélag Kópavogs til þess að undirrita sama kjarasamning og Samband íslenskra sveitarfélaga hefur samið um við önnur bæjarstarfsmannafélög. Í þeim samningi er félagsmönnum tryggð allt að níu prósenta launahækkun.
Að öllu óbreyttu hefst verkfall starfsmanna Kópavogsbæjar sem eru í Starfsmannafélagi Kópavogs á mánudag klukkan 06.00. Upplýsingar um áhrif verkfallsins á þjónustu bæjarins verða settar inn á vef bæjarins fyrir helgi auk þess sem forstöðumenn stofnana, skólastjórar, leikskólastjórar og aðrir, senda viðkomandi tölvupóst um áhrif verkfallsins.