Ný Facebook síða Pírata í Kópavogi heitir nú: „Dögun og sjóræningjarnir í Kópavogi.“ Svo virðist sem að hluti Pírata vilji renna saman við Dögun og bjóða fram sameiginlega í Kópavogi fyrir sveitastjórnarkosningarnar í lok þessa mánaðar.
Stjórn Pírata sagði af sér í kjölfar mikillar óánægju með niðurstöðu prófkjörs, að því er fram kemur í tilkynningu. Erfitt er að greina atburðarrásina en svo virðist sem að hluti stjórnarmanna hafi viljað ganga til liðs við Dögun en jafnframt sitja í stjórn Pírata. En svo ákvað hún að segja af sér, eftir hitaumræður í Hamraborginni þar sem Píratar hafa haft aðstöðu í húsnæði gamla Búnaðarbankans.
Þá var fundarmönnum vikið úr húsnæðinu og sagt að þar eigi nú að vera kosningamiðstöð annars framboðs, að því er rúv greinir frá.
Fundarmenn fóru þá yfir í næsta hús, á Cafe Catalína, og kaus nýja stjórn til bráðabirgða. Hana skipa Ingólfur Árni Gunnarsson, Einar Páll Gunnarsson, Auður Eiríksdóttir, Gunnar Þór Snorrason og Birgir Örn Einarsson.