Alltaf sami gamli þorparinn

Bragi Halldórsson.

Ég er ekki beint hælisleitandi í Kópavogi en að minnsta kosti flóttamaður og nýbúi. Ég flúði sjávarpláss út á landi þar sem mér fannst ég eiga orðið litla samleið með fólkinu þar lengur og kom mér fyrir á Skólavörðuholti, sem er bara annað lítið þorp í raun. Þar vilja jú allir tvítugir búa í hringiðu skemmtanalífsins og ég ég var þannig þá. Ósköp venjulegur flóttamaður utan af landi, þyrstur í sollinn í Reykjavík.

En þar sem ég er þorpari, þorpari í þeirri merkingu að hafa alist upp í þorpi, þá fannst mér Stór-Reykjavíkursvæðið algerlega yfirþyrmandi og hélt mig eingöngu í göngufæri frá holtinu og var hreinræktuð Miðbæjarrotta. En svo liðu árin og sollinn missti glans sinn og félagarnir fluttust brott einn af öðrum með aldrinum. Börnin urðu tvö og sá eldri farinn að reka sig upp í rjáfrið í risherberginu sínu í litla timburhúsinu sem við bjuggum í. Húsið kölluðum við dúkkuhúsið, það var svo lítið. Svo ekki varð hjá því komist að fjölskyldan tæki sig upp og flytti búferlum.

Því var lagst yfir fasteignaauglýsingar. En eins og allir vita sem skoðað hafa fasteignir í miðbæ Reykjavíkur, þá er varla til þar húsnæði sem hentar fjögurra manna fjölskyldu. Nær allt húsnæði þar er þannig úr garði gert að íbúarnir verða að aðlaga sig húsnæðinu með kostum þess og göllum. Alskyns ranghölum, stigum, skúmaskotum og ólöglegri lofthæð í kjöllurum. Ekki er hægt að laga húsnæðið að þörfum íbúana svo auðveldlega nema með verulegum tilfæringum.

Ég er alger þverhaus, eins og allir vita sem mig þekkja, og vildi alls ekki flytja. Svo svar mitt við öllum hugmyndum um að flýja úr miðbænum var þvert nei. Innst inni vissi ég þó að húsnæðið sem hentaði okkur væri ekki til þar.

En hvernig skeði það þá að þorparinn ég flytti í Kópavoginn? Jú, konan mín þekkir sinn þverhaus svo hún lagði fyrir hann gildru. Ég ólst upp í fjörunni eins og flestir krakkar í sjávarplássum. Því hafði ég mikla þörf fyrir að sjá sjóinn helst alla daga. Svo án minnar vitundar fann hún hús í Kópavoginum en sagði ekkert heldur tók mig í bíltúr.

Strax á Miklubrautinni fór að fara um mig og þegar hún beygði inn Kringlumýrarbrautina var ég farinn að svitna. Ég sá Hamraborgina nálgast og tók í öryggisbeltið og hugsaði hvort ég ætti að kasta mér út úr bílnum á ferð. Þá beygði hún niður á Kársnesbraut, keyrði smá spöl og lagði bílnum þar. Orðið nei hljómaði hátt í höfði mér.

Á aðra hönd girðing sem ekkert sást yfir og á hina hönd hús sem gætu hafa verið í Hlíðunum en ég var búin að þvertaka fyrir að flytja þangað. Og hingað myndi ég aldrei flytja. Aldrei. En út úr bílnum samþykkti ég þó að fara og hún teymdi mig að gati á girðingunni. Og hvað blasti þá ekki við mér? Sjórinn! Svo benti hún á hús hálfhulið trjám „Þetta hús fann á netinu í nótt,“ sagði hún. „Ertu til í að skipta á gamla dúkkuhúsinu í Þingholti þar sem nota þarf skóhorn til að koma öllu fyrir og þessu húsi við sjóinn?“

Já, svona skeði það að ég varð innflytjandi í Kópavoginum og gerðist þar nýbúi. Ég flúði úr einu þorpi út á landi, í annað á miðju höfuðborgarsvæðinu og svo var ég eiginlega kominn í hring, því sjórinn togaði svo í mig.

Hér líður mér síðan svona fjandi vel að kanski maður bara endi á því að bera sín bein í Kópavoginum. Hver veit. En auðvitað er ég engin flóttamaður, ég tek bara svona til orða. Ég get þó alltaf hlustað á gjálfur öldunnar og horft út á sjóinn rétt eins og þegar ég var krakki og fleytti kerlingar í fjörunni. Kannski verð ég heldur aldrei alveg fullorðin í hjarta mínu. Alltaf sami gamli þorparinn.

Sólarlag við Fossvog.  Mynd: Bragi Halldórsson.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn