Andemariam var fæddur í Erítreu 20. júní árið 1973. Hann nam jarðfræði við Háskólann í Asmara og lauk þaðan BS gráðu árið 2000. Eftir útskrift hóf hann störf við Landbúnaðarráðuneyti Erítreu og starfaði við grunnvatnsrannsóknir. Árið 2004 flutti Andemariam sig yfir til Jarðfræðistofnunar Erítreu og starfaði þar við forðarannsóknir jarðhitasvæða.
Haustið 2006 var Andemariam tilnefndur til þátttöku í Þúsaldarnámskeiði Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna um jarðhitarannsóknir, sem haldið var í Kenýa, þar sem hann vakti athygli fyrir góða frammistöðu. Í framhaldi af því var honum boðið til Íslands sumarið 2007 í 6 mánaða þjálfun í jarðeðlisfræði við Jarðhitaskóla HSþ. Að þjálfun lokinni í október sama ár snéri hann aftur heim til Erítreu, og starfaði þar að jarðhitarannsóknum næstu tvö árin. Haustið 2009 var honum boðið aftur til Íslands og þá til að stunda meistaranám í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, á styrk frá Jarðhitaskólanum. Það var fljótlega eftir komuna til Íslands sem hann var greindur með mjög alvarlegt krabbamein í barka. Hann hlaut læknismeðferð hér á landi og síðar í Svíþjóð þar sem græddur var í hann plastbarki og var þar með brotið blað í sögu læknavísindanna. En þetta var í fyrsta sinn sem slíkt líffæri, framleitt á rannsóknarstofu en innsíað með stofnfrumum líffæraþegans sjálfs, var grætt í manneskju.
Þrátt fyrir erfið veikindi stundaði Andemariam námið eftir megni og varði meistararitgerð sína í byrjun árs 2012. Vegna nauðsynlegrar læknismeðferðar gat Andemariam ekki snúið aftur heim að námi loknu, þó að hugur hans stefndi ávallt til þess. Í framhaldinu var Andemariam því ráðinn til tímabundinna starfa hjá Íslenskum orkurannsóknum – ÍSOR við rannsóknarstörf, og sinnti jafnframt kennslu við Jarðhitaskóla HSþ. Veikindin háðu honum þó enn og þurfti hann að vera undir stöðugu eftirliti lækna, allt þar til yfir lauk, þann 30. janúar 2014.
Andemariam lætur eftir sig eiginkonu og þrjá unga syni. Hann verður jarðsunginn í Erítreu en minningarathöfn verður haldin í Hjallakirkju, Kópavogi, mánudaginn 3. mars kl 17.00. Þeim sem vildu minnast hans er bent á styrktarreikning fyrir fjölskyldu hans, 0322-13-110374, kt 100984-4669.