Anton Helgi Jónsson skáld hlaut í dag Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóð sitt „Horfurnar um miðja vikuna“ í árlegri ljóðasamkeppni Kópavogsbæjar. Hann er þar með þrettándi handhafi ljóðstafsins. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Salnum. Um þrjú hundruð ljóð bárust í keppnina. Tilgangur hennar er að efla og vekja áhuga á íslenskri ljóðlist.
Adolf Friðriksson, fornleifafræðingur, varð í öðru sæti með ljóð sitt Háaloft og Uggi Jónsson, skáld og þýðandi, varð í því þriðja með ljóð sitt Mávarnir. Á sama tíma voru veitt verðlaun í ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs og hreppti Patrik Snær Eiríksson, Hörðuvallaskóla, fyrsta sætið með ljóð sitt Næturhimininn. Diellza Morina, Álfhólsskóla varð í öðru sæti með ljóð sitt Ljóð og Íris Ólafsdóttir, Hörðuvallaskóla varð í því þriðja með ljóð sitt Reykjavík.
Anton Helgi hlaut einnig Ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2009 og hefur þar með skráð sig í sögubækur keppninnar sem fyrsti höfundur til að vinna ljóðstafinn tvívegis. Hann hefur gefið út sjö ljóðabækur og eina skáldsögu og á fjörutíu ára útgáfuafmæli á þessu ári. Í rökstuðningi dómnefndar segir m.a. um ljóð hans að það hefði vakið athygli allra dómnefndarmanna við fyrsta lestur. „Ljóðið er ort af snerpu og þrótti af skáldi sem hefur nútímalegt ljóðmál fullkomlega á valdi sínu.“
Sex önnur ljóð fengu viðurkenningu, ljóð Solvegar Thoroddsen, Þriðjudagur í nóvember, ljóð Pálma R. Péturssonar, Þúfnavals, ljóð Antons Helga Jónssonar, Föstudagur á Miklubraut, ljóð Guðmundar Brynjólfssonar, Rondo, ljóð Margrétar Þ. Jóelsdóttur, Stóðið og ljóð Kristins Árnasonar, Sólför.
Í dómnefnd keppninnar eru Sindri Freysson, skáld og rithöfundur, Jón Yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur, og Gunnþórunn Guðmundsdóttir , bókmenntafræðingur og dósent við Háskóla Íslands. Ljóðin í ljóðasamkeppni Ljóðstafs Jóns úr Vör voru send undir dulnefni og vissi dómnefnd því ekki hverjir höfundarnir voru fyrr en sigurljóðin höfðu verið valin.
Anton Helgi fæddist í Hafnarfirði 15. Janúar 1955 en flutti tólf ára til Reykjavíkur og hefur verið búsettur þar lengst af ævinnar. Auk þess að sinna ritstörfum hefur Anton Helgi unnið margvísleg störf í gegnum tíðina, en starfaði lengst af á auglýsingastofum fram á síðari ár, einkum við verkefnastýringu og ritstjórn. Hann er kvæntur og fjögurra barna faðir.
Rökstuðningur dómnefndar er í heild sinni eftirfarandi:
„Ljóðið sem hreppti fyrsta sætið ber titilinn „Horfurnar um miðja vikuna“ , ljóð sem vakti athygli allra dómnefndarmanna við fyrsta lestur og vinnur á við nánari kynni. Ljóðið er ort af snerpu og þrótti af skáldi sem hefur nútímalegt ljóðmál fullkomlega á valdi sínu. Í ljóðinu er gefin í skyn hliðstæða með mannsævinni annars vegar og dögum vikunnar hins vegar. Á miðvikudegi horfir miðaldra ljóðmælandi til framtíðar og þótt hann hafi ekki enn fundið sig til fulls er hann fullur bjartsýni og undirstrikar þá glaðbeittu lífsgleði sem ljóðið miðlar með því að sækja lokamyndina til unglingsáranna þar sem bílskúrsband „djöflast frameftir“ í höfði hans. Bygging ljóðsins er markviss og þótt ljóðmálið sé einfalt byggir það á snjallri notkun endurtekninga og óreglulegrar stuðlasetningar sem magna upp hrynjandi í ljóðinu, tónlist með undirliggjandi rokktakti sem kallast á við myndina í lokaerindinu.“
Hér má sjá Anton Helga flytja verðlaunaljóð sitt: „Horfurnar um miðja vikuna“
Horfurnar um miðja viku
Það er bara miðvikudagur
enn getur allt gerst
enn er von
enn má finna rétta taktinn
finna sinn hljóm
jafnvel finna sig í góðu lagi
allt getur gerst
meðan enn leynist bílskúr
baka til í hausnum á mér
og band
sem djöflast frameftir
Anton Helgi Jónsson