Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri: „Félagslegi íbúðavandinn er uppsafnaður vandi á landsvísu sem leysist ekki með skyndilausn sem nú heitir „viljayfirlýsing.“ Stendur fast á að greiða niður skuldir bæjarins

Ákvörðun bæjarstjórnar um að festa kaup á 30-40 íbúðum og byggja tvær blokkir í félagslega íbúðkerfinu hefur sett allt upp í loft á hinu pólitíska sviði í bænum. Meirihlutaflokkarnir ætla þó að halda samstarfinu áfram út kjörtímabilið. Engum dylst að Sjálfstæðisflokkurinn er klofinn í tvær fylkingar í bænum. Á milli Gunnars Birgissonar og Ármanns Kr. Ólafssonar hefur löngum verið stirt en þó sérstaklega nú þegar Gunnar fór gegn meirihlutanum í húsnæðismálum og settist með minnihlutanum í því máli.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri, segir Gunnar Birgisson hljóta að vera óhressan með hvað vel hafi gengið í rekstri bæjarins. „Hann hefur tekið höndum saman við Samfylkinguna við að þyrla upp ryki í augum fólks. Hagsmunir bæjarsjóðs skipta þá engu máli. Félagslegi íbúðavandinn er uppsafnaður vandi á landsvísu og nær yfir mörg ár sem leysist ekki með skyndilausn sem nú heitir „viljayfirlýsing“ heldur með samstilltu átaki,“ segir Ármann.

En er ekki brýn þörf á þessu húsnæði núna?
„Jú, þörfin er mikil og þess vegna keyptum við fleiri íbúðir í fyrra en árin þar á undan,  en þegar einhver segir „brýn þörf“ þá er þetta ekki eitthvað sem er að gerast núna eins og skilja mætti á spunameisturum. Það hefur fækkað á biðlista eftir félagslegum íbúðum frá 2010 til 2013 og mun færri sækja um félagslegt húsnæði hjá bænum. Málflutningur Samfylkingar er að þessi málaflokkur hafi verið í betra horfi þegar þau voru hér við völd, en sannleikurinn er sá að þau lögðu enga áherslu á félagslega íbúðakerfið. Ég stend fast á þeirri stefnu að greiða niður skuldir bæjarins. Fyrir hvern milljarð sem bærinn greiðir niður þá spörum við 70 – 100 milljónir á ári í vaxtagjöld. Það hljóta allir að sjá hversu mikils virði það er.“

Hver er þá staðan á félagslegum húsnæðismálum í Kópavogi?
„Kópavogsbær á flestar íbúðir á hverja 1000 íbúa, fyrir utan Reykjavík, eða 10 íbúðir á hverja 1000 íbúa. Þetta eru um 400 íbúðir og það lætur nærri að vera á millil 5-6% af öllu fjölbýli í Kópavogi. Til samanburðar má nefna að Garðabær á aðeins 0,7 íbúð á hverja 1000 íbúa. Það hljóta allir að sjá að ekki eitt sveitarfélag geti leyst allan húsnæðisvanda heldur þarf fólk að taka höndum saman. Þess vegna mynduðum við þverpólitíska nefnd í desember, með aðkomu allra flokka, sem skoðuðu kosti og galla ýmissa leiða. Á síðasta ári fjölgaði félagslegum íbúðum í Kópavogi. Það hefur fækkað á biðlista frá 2010 og nýskráningum hefur líka fækkað. Það er líka til marks um að ástandið hefur farið batnandi í samfélaginu, sem betur fer.  En ég legg áherslu á að það þarf að skoða þennan málaflokk heilstætt og þess vegna erum við með þessa þverpólitísku nefnd. Það eru miklu fleiri möguleikar í stöðunni,“ segir Ármann og bendir á neðangreindar tölur, máli sinu til stuðnings:

graf
Fjöldi á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði. Heimild: Kópavogsbær.
Heimild: Kópavogsær
Heimild: Kópavogsbær

 

Heimild: Félagsbústaðir.is
Heimild: Félagsbústaðir.is

Hvernig stendur bærinn fjárhagslega?
„Bærinn stendur vel fjárhagslega. Það gengur mjög vel í rekstri bæjarins þrátt fyrir að við höfum verið að glíma við fortíðardrauga. Þegar hrunið átti sér stað varð að greiða út háar fjárhæðir úr bæjarsjóð vegna lóðaskila. Til þess þurfti að taka lán sem voru óhagstæð vegna verðbólgu og annarra ytri þátta. Við vorum ekki eina sveitarfélagið sem lenti í þessu. Í dag er bjart framundan í rekstri bæjarins sem hefur snarbatnað að undanförnu. Skuldir hafa verið greiddar niður, skattar lækkaðir og framkvæmdastigið hér er  það hæsta frá hruni. Rekstrarafgangur í Kópavogi hefur aldrei verið meiri á þessum sama tíma. Þetta hefur tekist án þess að það hafi bitnað á grunnþjónustunni. Börn komast fyrr inn á leikskóla. Grunnskólar eru að standa sig vel í samanburðarrannsóknum og skólastarfið er allt á uppleið. Kópavogur hefur alla möguleika á að verða best rekna sveitarfélag landsins í lok næsta kjörtímabils ef áfram er haldið rétt á málunum.“

Bærinn hefur þanist út á örskömmum tíma, hvar eru framtíðar vaxtamöguleikar hans?
„Nýjar áherslur hafa verið að koma fram í skipulagsmálum með þéttingu byggðar þar sem við hugsum meira inn á við. Áherslan á að þenja bæinn út hefur minnkað. Við viljum nýta þá innviði sem þegar eru í bænum. Ég legg mikið upp úr því að við njótum bæjarins betur. Ég vil til dæmis fjölga og tvöfalda göngu- og hjólreiðastígum í Kópavogs- og Fossvogsdölum, hlúa að umhverfinu í kringum skóla, bæta aðstöðu á leikskólalóðum og bæta merkingar í kringum skóla. Ég vil gróðursetja meira og snyrta bæinn enn frekar þannig að þessi bær verði ennþá fallegri. En ef þú spyrð um aukin byggingarsvæði þá erum við tilbúin með samkvæmt nýjum aðalskipulagi  allt að  500 íbúða byggð á Glaðheimasvæðinu rétt hjá Lindaskóla og í nálægð við íþróttasvæði og leikskóla. Þar er allt til staðar. Sömu sögu er að segja á svæðinu fyrir ofan Smáralind þar sem svipuð byggð gæti risið og í Bryggjuhverfinu á Kársnesi verða 392 íbúðir byggðar.“

Hvað viltu segja um þetta síðasta upphlaup Gunnars Birgissonar og kosningabaráttuna sem er farin í gang?
„Ég vil helst ekki þurfa að ræða um hurðaskelli Gunnars og Guðríðar rétt áður en þau hætta í bæjarstjórn.“

Það er prófkjör framundan hjá Sjálfstæðisflokknum í bænum og þú hefur fengið mótframboð í fyrsta sæti listans. Hvernig metur þú þína stöðu?
„Það er allt undir kjósendum komið. Þetta verður glæsilegt prófkjör hjá okkur Sjálfstæðimönnum í bænum. Það er mikið gleðiefni að það sé mikið af frambærilegu fólki sem býður sig fram. Eina sem ég óska er að fólk stundi heiðarlega kosningabaráttu. Við þurfum að vinna saman þegar niðurstaðan liggur fyrir.“

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Niðurlagning Héraðsskjalasafns Kópavogs

Skaðræðisgjörningur bæjarstjórnar Kópavogs Bæjarstjórn Kópavogs ákvað á fundi sínum 25. apríl 2023 með sex atkvæðum meirihlutans gegn fimm atkvæðum minnihlutans að leggja niður Héraðsskjalasafn Kópavogs. Þar fetaði bæjarstjórnin í slóð

Hrönn Valgeirsdóttir, leikskólakennari og M.A. í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf.

Mikill áhugi á fræðslukvöldum fyrir foreldra

Foreldrum og forsjáraðilum leikskólabarna í Kópavogi stendur til boða að mæta á fræðslukvöld þar sem fjallað er um uppeldishætti, að setja mörk og ábyrgð og líðan foreldra. Fyrsti fundurinn var

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn