Ásdís Kristjánsdóttir gefur kost á sér í 1. sæti Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi í prófkjöri sem fram fer 12. mars. Yfirlýsing Ásdísar er svohljóðandi:
„Kópavogur er í fremstu röð sveitarfélaga á Íslandi. Mig langar til að leggja mitt af mörkum til að tryggja að svo verði áfram, með því að leggja áherslu á traustan fjárhag, framúrskarandi þjónustu og skýra framtíðarsýn fyrir alla bæjarbúa. Þess vegna sækist ég eftir fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi í sveitarstjórnarkosningunum í vor.
Ábyrgur rekstur er forsenda þess að unnt sé að veita lipra, sveigjanlega og góða þjónustu sem mætir ólíkum þörfum fólks, en um leið verðum við að leita allra leiða til að stilla gjöldum og álögum á fólk og fyrirtæki í hóf. Við getum styrkt tekjustofna bæjarfélagsins og fjölgað atvinnutækifærum með því að laða enn frekar til okkar öfluga starfsemi fjölbreyttra fyrirtækja. Til þess þurfum við að tryggja að öll stjórnsýsla sé skilvirk og snurðulaus, að erindi séu afgreidd hratt og örugglega og leggja áherslu á að spara fólki sporin með stafrænum lausnum.
Fram undan eru áhugaverð uppbyggingarverkefni í bænum og mikilvægt að vanda vel til verka, tryggja samstöðu og sátt meðal bæjarbúa og húsnæði fyrir fólk á öllum ævistigum. Samgöngur skipta okkur öll máli, hvort sem við erum gangandi, á hjóli eða í bíl. Ég vil bættar samgöngur fyrir fjölbreyttan lífstíl í takt við vaxandi bæ.
Ég er gift Agnari Tómasi Möller, verkfræðingi og saman eigum við þrjú börn á grunnskólaaldri sem við höfum alið upp í sveitarfélaginu síðastliðin 10 ár. Ég hef tekið virkan þátt í foreldrafélagi barna minna í bæði leik- og grunnskóla bæjarins auk þess sem ég hef setið í aðalstjórn HK síðastliðin 3 ár.
Ég býð fram reynslu mína, þekkingu og styrkleika til þess að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi og óska því eftir stuðningi í 1. sæti í prófkjörinu þann 12. mars næstkomandi.