
Bjartsýni og miklar væntingar einkenndu viðhorf heimsbyggðarinnar til ársins 2020 í upphafi þess. Staðreyndin er hins vegar sú að þær væntingar hafa ekki gengið eftir heldur hefur árið 2020 fært okkur mjög óvæntar áskoranir sem engan grunaði að byðu okkar. Heimsfaraldurinn Covid 19 hefur breytt heiminum til frambúðar.
Fyrir Kópavogsbæ hefur faraldurinn haft ýmsar afleiðingar. Tekjufall bæjarins er verulegt. Útsvarstekjur ársins hafa lækkað umtalsvert og sama á við um aðrar tekjur eins og af sundlaugum og leikskólum. Þetta er alveg nýtt fyrir okkur í Kópavogi vegna þess að afkoma bæjarins hefur alltaf verið miklu betri en áætlanir gerðu ráð fyrir mörg undanfarin ár.
Þessu til viðbótar hefur ýmis rekstrarkostnaður hækkað vegna faraldursins, ekki síst í velferðar- og menntamálum. Íbúar geta engu að síður verið þess fullvissir að staðið verður vörð um grunnþjónustu bæjarins og bæjarstjórn mun horfa til þess að í hverri áskorun felast ýmis tækifæri.
Sem dæmi má nefna að bæjarstjórn tók þá ákvörðun í upphafi faraldursins að auka framkvæmdir og þar með draga úr atvinnuleysi. Þá var ákveðið að ráða alla námsmenn sem sóttu um störf í sumar sem þýddi mikla fjölgun frá hefðbundnu ári. Fór svo að um 700 sumarstarfsmenn fengu vinnu hjá Kópavogsbæ í sumar, en til samanburðar voru þeir 400 í fyrra.
Tíminn var nýttur vel og vil ég leyfa mér að fullyrða að bærinn hefur sjaldan litið jafn vel út og í sumar. Mikil vinna fór í umhirðu grænna svæða, hljóðvarnargirðingar voru málaðar og aukinn kraftur var settur í skógrækt og fjölgun sumarblóma. Þetta er góð viðbót við aðrar framkvæmdir í bænum og til þess fallnar að gleðja íbúa sem stunda útivist. Vil ég þar nefna heilsuhring umhverfis kirkjugarðinn, nýtt leiksvæði við Salalaug, gosbrunn við menningarhúsin og endurbætur við rætur Himnastigans sívinsæla í Kópavogsdal.
Við höfum líka nýtt árið vel til nýsköpunar þar sem við réðum háskólanema í tölvunarfræði í sumarvinnu til að þróa með okkur hugbúnaðarlausn sem mun nýtast Kópavogsbæ til árangursmælinga. Þannig getum við mælt hvort einstök verkefni skila þeim árangri sem lagt var upp með t.d. við gerð fjárhagsáætlunar.
Hugkvæmni og aðlögunarhæfni eru góðir eiginleikar sem við höfum þurft að nýta okkur í miklum mæli það sem af er ári og verður einnig gott veganesti inn í haustið þegar vinna við fjárhagsáætlun næsta árs fer fram. Þar verður að finna jafnvægi milli þess að eyða fjármunum skynsamlega um leið og Kópavogsbær leggur sitt lóð á vogarskálarnar til þess að ýta undir að hjól atvinnulífisins snúist áfram þar til atvinnugreinar sem tengdar ferðaþjónustu fá frelsi til að starfa á nýjan leik.