80-100 auðar íbúðir í Kópavogi í eigu ÍBL og bankanna? Vill húsnæðislánakerfið eða hluta þess niður á sveitarstjórnarstigið.

Hjálmar Hjálmarsson hjá Næst besta flokknum.
Hjálmar Hjálmarsson hjá Næst besta flokknum.

Vel á annað þúsund íbúðir um allt land standa auðar sem eru í eigu Íbúðalánasjóðs og bankanna, samkvæmt nýlegum fréttum. Hlutfallslega gæti það þýtt um 80-100 auðar íbúðir í Kópavogi, að mati Hjálmars Hjálmarssonar, bæjarfulltrúa Næst besta flokksins í Kópavogi. Samkvæmt tölum frá Jöfnunarsjóði sveitarélaga fer fólki ört fjölgandi sem þiggur sérstakar húsaleigubætur. „Það stefnir í óefni í félagslega íbúðakerfinu ef ekkert verður gert strax,“ segir Hjálmar sem veltir því fyrir sér hvort sérstöku húsaleigubótunum sé betur varið til fjárfestingar í félagslega kerfinu.

-Hvernig birtist þessi vandi í Kópavogi?

„Það hvílir skylda á sveitarfélögunum í landinu að sjá fólki fyrir félagslegu húsnæði, þótt ekki sé meitlað í lög hvernig nákvæmlega að því skuli staðið. Ég tek það fram að ég er enginn sérfræðingur um húsnæðiskerfið en mér finnst mikilvægt að sveitastjórnarmenn sitji ekki hjá í þessari umræðu allri,“ segir Hjalmar. „Það er til dæmis stór hópur fólks á leið út á íbúðamarkað sem er að koma úr námi. Það stefnir í kreppu hjá þessu fólki. Það mun ekki eiga fyrir húsnæði og heldur ekki fyrir leigu sem fer sífellt hækkandi. Hluti af þessu fólki mun líklega leita á náðir sveitarfélaganna. Og hluti þessa fólks mun flytjast af landi brott eða snúa ekki heim að loknu námi erlendis. Þessi vandi birtist til að mynda í þeim mikla fjölda fólks sem þiggur sérstakar húsaleigubætur af sveitarfélögunum. Ég spái holskeflu vandamála innan tveggja til þriggja ára ef ekkert verður að gert,“ segir Hjálmar.

-Af hverju vilt þú láta endurskoða reglur um úthlutun á félagslegu húsnæði?

„Ég lagði fram fyrirspurn í bæjarráði um að félagsmálaráð endurskoði reglur vegna úhlutunar félagslegs leiguhúsnæðis. Þá hef ég óskað eftir yfirliti yfir auðar íbúðir í bænum, sem eru í eigu Íbúðalánasjóðs eða fjármálastofnana. Kópavogsbær á um 400 íbúðir en samt eru biðlistarnir að lengjast og okkur vantar sárlega fleiri íbúðir. Það kannski lýsir vandanum í hnotskurn. Úthlutun í félagslega íbúðakerfinu byggir á gömlu punktakerfi sem er fyrir löngu orðið úrelt,“ segir Hjálmar. „Einkum og sér í lagi eftir bankahrunið. Það hefur margt breyst í þjóðfélaginu og tekjumark kerfisins er orðið óraunhæft og ekki í takti við verðlagsbreytingar. Það eru hópar í mjög erfiðri félagslegri stöðu sem voru það ekki fyrir nokkrum árum. Lágtekju- og millistéttarfólk er að lenda í erfiðleikum. Fólk sem jafnvel er í fullri vinnu á þokkalegustu launum á erfitt með að ná endum saman. Það þarf að fara yfir þetta kerfi í heild sinni og fjölga búsetuúrræðum og sveitarfélögum er skylt að taka þátt í þeirri vinnu.“ segir Hjálmar.

-Hvað er til ráða?

„Sveitarfélög, þar með talið Kópavogsbær, gátu áður fengið lán hjá Íbúðalánasjóði til þess að byggja félagslegar íbúðir. Það hefur verið stopp undanfarin ár vegna reglugerðabreytinga um stærðir íbúðanna sem sitja fastar í Velferðarráðuneytinu. Við í Kópavogi, sem og flest önnur sveitarfélög í landinu, höfum því þurft að leita annarra leiða til að fjármagna byggingu félagslegra íbúða. Það eru fullt af nefndum og ráðum og starfshópum víðs vegar um stjórnkerfið sem vilja allt gera en það gengur bara allt of hægt að útvega raunveruleg úrræði fyrir fólk sem er í brýnum vanda. Á meðan verið er að tala um hlutina lengjast bara biðlistar,“ segir Hjálmar. „Ég held að við ættum að ræða það í alvöru að taka húsnæðislánakerfið eða hluta þess niður á sveitarstjórnarstigið. Allt hnígur að því að nauðsynlegt sé að breyta þessu kerfi eða fyrirkomulagi. Sveitarstjórnir eiga ekki að vera stikkfrí í þeirri umræðu.“

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Kópavogsblaðið komið út

Stolt Kópavogs eru á forsíðu Kópavogsblaðsins að þessu sinni. Karlalið Breiðabliks er komið í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu eftir að hafa slegið út Struga frá Norður-Makedóníu. Blikar leika sex leiki í

Mygla hjá velferðarsviði

Velferðarsvið Kópavogsbæjar er ekki lengur með starfsemi í Fannborg 6. Slæm loftgæði eru í húsinu sem haft hefur áhrif á starfsfólk hússins og sýna nýjustu mælingar há gildi myglugróar. Því

Stuð á Hamraborg Festival

Hamraborg Festival fór fram í lok ágúst í Hamraborg og í menningarhúsunum í Kópavogi, en Hamraborg Festival er þverfagleg hátíð með sérstakri áherslu á myndlist, staðbundin verk, gjörningalist og samfélagslega

Króníkan opnar í Gerðarsafni

Veitingastaðurinn Króníkan opnaði í sumar í Gerðarsafni. Samningur við nýjan rekstraraðila var undirritaður 11.maí, á afmælisdegi Kópavogsbæjar. Bragi Skaftason og Sigrún Skaftadóttir, systkini úr Vesturbæ Kópavogs, hafa tekið reksturinn að sér