Íþróttahátíð Kópavogs var haldin í Salnum í dag þar sem íþróttafólki úr bænum voru veittar viðurkenningar fyrir unnin afrek.
Auðunn Jónsson, kraftlyftingamaður úr Breiðabliki, var valinn íþróttakarl ársins í Kópavogi. Auðunn hefur um árabil verið í flokki bestu kraftlyftingamanna heims og unnið fjölda verðlauna hér heima og erlendis. Hann varð meðal annars heimsmeistari í réttstöðulyftu árið 2012. Á liðnu ári ber hæst Evrópumeistaratitill í réttstöðulyftu á EM í tékklandi. Áður hafði Auðunn unnið til silfurverðlauna í hnébeygju og bronsverðlauna í bekkpressu á mótinu.
Rakel Hönnudóttir gekk til liðs við Breiðablik fyrir tímabilið 2012. Frá þeim tíma hefur hún verið lykilmaður liðsins, leikið 32 leiki og skorað í þeim 19 mörk. Í úrslitaleik Borgunarbikarsins skoraði hún sigurmarkið í 2-1 sigri á Þór/KA og tryggði þar með Breiðabliki fyrsta stóra titilinn frá árinu 2005 í kvennaboltanum. Í umsögn íþróttaráðs segir að Rakel sé vel að tilnefningunni komin þar sem hún er mikil fyrirmynd allra ungra knattspyrnukvenna hvort sem er innan eða utan vallar.