Auðunn Jónsson gerði sér lítið fyrir og lyfti næstum því tonni í samanlögðu á Norðurlandamótinu á dögunum sem fram fór nýlega í Njarðvík. Halldór Eyþórsson var einnig á meðal keppenda en hann mætti öflugum Norðmönnum í -83 kílóa flokki. Hafnaði hann í þriðja sæti með 247,5 kíló í hnébeygju, 140 kíló í bekkpressu og 245 kíló í réttstöðuliftu, það er 632,5 kíló í samanlögðu, en gullið vannst á 732,5 kíló og silfrið á 697,5 kíló í þessum þyngdarflokki.
Auðunn keppti hins vegar í fyrsta sinn í -120 kíló flokki en hann hefur síðustu ár ávallt keppt í yfirþungavigt. Þetta var fjölmennasti flokkur mótsins og var hörð barátta um að komast á verðlaunapall. Leikar fóru svo að Auðunn fékk gild 360 kíló í hnébeygju, 250 kíló í bekkpressu og 335 kíló í réttstöðulyftu; eða 945 kíló í samanlögðu.