Sunnuhlíð, ævintýri fólks og félaga í Kópavogi 1979–1999 heitir ný bók sem Sögufélag Kópavogs hefur gefið út. Í bókinni rekur Ásgeir Jóhannesson sögu Sunnuhlíðarsamtakanna þau 20 ár sem hann var formaður þeirra.
Það var árið 1979 sem níu félög Kópavogsbúa bundust samtökum um að byggja í bænum hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Til að fjámagna bygginguna hrundu þau af stað söfnun í Kópavogi og lögðu flest heimili bæjarins sitt af mörkum. Þjóðin öll fylgdist með söfuninni og fjölmargir velunnarar og félagasamtök studdu hana með áheitum og gjöfum.
Þessi samstaða svo margra félaga að slíku verkefni var einstök hér á landi og jafnvel á heimsvísu. Þann 20. maí 1982 var síðan 38 rúma hjúkrunarheimili aldraðra í Kópavogi vígt og gefið nafnið Sunnuhlíð. Það var fyrsta sérhannaða hjúkrunarheimili fyrir aldraða á Íslandi. Þegar hjúkrunarheimilið var tekið til starfa ákváðu Sunnuhlíðarsamtökin að reisa stórhýsi með þjónustuíbúðum fyrir aldraða og mörkuðu tímamót hvað varðaði fjármögnun og rekstur slíkra bygginga.
Ásgeir Jóhannesson rifjar upp í bókinni þetta einstaka félagslega ævintýri sem enn má margt af læra.
Í bókinni getur að líta fjölda ljósmynda frá tímabilinu sem fjallað er um og má þar þekkja fjölda Kópavogsbúa á öllum aldri.
Bókin er 196 blaðsíður að stærð í einkar handhægu broti.
Nánari upplýsingar veitir formaður Sögufélags Kópavog, Þórður Guðmundsson í síma 862-1437