Ármann Kr. Ólafsson, bæjarsrtjóri Kópavogs, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna bókunar Samfylkingar og Næstbesta flokksins í bæjarstjórn sem við sögðum frá í morgun:
Um leið og ég óska Samfylkingunni gleðilegs sumars og þakka fyrir samstarfið á liðnum vetri þá vísa ég innihaldslausum ásökunum til föðurhúsanna. Bæjarfulltrúarnir fengu skýrsluna sama dag og ég. Það er ekki að sitja á upplýsingum. Þetta nýja útspil Samfylkingarinnar lýsir mikilli málefnafátækt en endurspeglar um leið á hvaða nótum flokkurinn ætlar að reka sína kosningabaráttu. Ég hvet þau til að spila leikinn út frá málefnum stað þess að tækla manninn. Það er í þágu Kópavogsbúa.
Meðfylgjandi er bókun meirihlutans á síðasta bæjarstjórnarfundi sem var svar við bókun Samfylkingar og Næstbesta flokksins:
Svar við bókun Samfylkingarinnar
Það er útilokað að ætlast til þess að bæjarstjóri framfylgi tillögu sem skortir lagaheimild en lögmaður Sambands íslenskra sveitarfélaga sagði „þetta liggur að mínu viti tiltölulega ljóst fyrir í lögunum að fjárhagsáætlun er bindandi og því er ekki heimilt að ákveða ný útgjöld úr bæjarsjóði nema viðauki sé samþykktur áður, þar sem kveðið er á um hvernig útgöldum skuli mætt. Mér sýnist að því leyti sem ég hef skoðað málið að ljóst sé að enginn viðauki hafi verið lagður fram.“ Þá segir enn fremur „ég sé ekki að það sé hægt að samþykkja útgjöld úr bæjarsjóði nema að undangengnum viðauka í þessu máli.“
Bæjarfulltrúar hafa verið sammála því að greiða niður skuldir bæjarins og því er framfylgt í gildandi fjárhagsáætlun sem og í þeirri síðustu og þess vegna gátum við greitt niður skuldir bæjarins um tvo milljarða eins og fram kemur í ársreikningi fyrir árið 2013.
Umrædd skýrsla var send í tölvupósti að loknum vinnudegi til bæjarstjóra. Næsta dag var hún send á bæjarfulltrúa og í ljósi opinberrar umfjöllunar um húsnæðismál í Kópavogi var rétt að senda hana á fjölmiðla í kjölfarið.Aðalsteinn Jónsson, Margrét Björnsdóttir, Karen Halldórsdóttir, Ómar Stefánsson, Una Björg Einarsdóttir, Ármann Kr. Ólafsson