Bæjarstjórinn í Kópavogi, Ármann Kr. Ólafsson, hefur óskað eftir því að samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga f.h. Kópavogsbæjar leggi fram tilboð til lausnar kjaradeilu við Starfsmannafélag Kópavogsbæjar. Þetta kemur fram í yfrlýsingu frá bænum.
Tilboðið felur í sér:
- Aðilar samþykki kjarasamning sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gert við önnur bæjarstarfsmannafélög í landinu en með gildistíma frá 1. október 2014.
- Að auki greiðir Kópavogsbær 105.000 króna eingreiðslu til starfsmanna sem tekur m.a. mið af styttri gildistíma samnings. Með þessu er þeim lægst launuðu tryggð hlutfallsleg mest hækkun.
- Að auki tryggir Kópavogsbær ófaglærðum starfsmönnum á leikskólum sömu kjör og ófaglærðir á leikskólum Reykjavíkurborgar njóta út samningstímann, en þessi störf voru þau einu sem voru lægra borguð í samanburði milli sveitarfélaganna.
- Að sérákvæði um háskólamenntaða falli brott við lok samningstíma.
- Að Kópavogsbær skipi fulltrúa í stjórn Vísindasjóðs Starfsmannafélagsins.
Með tilboðinu er vonast til að deilan leysist áður en boðað verkfall hefst nk. mánudag. Tilboðið verður formlega lagt fram á fundi sem ríkissáttasemjari hefur boðað til á morgun, laugardag.