Bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi 2014 frá mínum sjónarhóli.

Ásdís Ólafsdóttir, íþróttakennari í Kópavogi.
Ásdís Ólafsdóttir, íþróttakennari í Kópavogi.

Tilraun til tiltektar í bæjarpólitíkinni.

Tíminn er fljótur að líða.  Það eru aðeins 4 ár síðan ég setti saman Y-lista Kópavogsbúa sem sprengdi þáverandi meirihluta. Þetta gerðist hratt og náði ég í flesta sem á listann fóru, og raðaði svo á hann sjálf, án nokkurra mótbáru, því ég vildi að unga fólkið tæki við og breytti pólitíkinni hér í Kópavogi. Loforð Y-listans (nú Björt framtíð) númer 1 var ÓPÓLITÍSKUR BÆJARSTJÓRI. Þetta byrjaði vel.  Við náðum inn manni og í framhaldi var myndaður nýr meirihluti eftir spennandi kosningar.  Þessi meirihluti sprakk síðar vegna óheilinda eftir 20 mánuði.

Myndun núverandi meirihluta.

Oddviti Y- listans vildi ótrúlega fljótt í samstarf við fyrrverandi meirihluta, þrátt fyrir að fyrsta loforð listans yrði svikið.  Okkar prinsipp sem fólk kaus okkur útá var þverbrotið, þ.e. óplitískur bæjarstjóri. Helmingur listans sagði nei en hinn helmingurinn með nokkra meðreiðarsveina fór með oddvitanum, þrátt fyrir að hafa hafa sent yfirlýsingar í tölvupósti um að öll okkar prinsipp væru brotin og það væru svik við kjósendur að endurreisa gamla meirihlutann.  Það var greinilega gott að fara í vel greiddar nefndir. Hluti þeirra sem endurreistu gamla meirihlutann  er nú í fremstu röð á lista Bjartrar framtíðar og eru að mínu mati því „úlfar í sauðagæru“ á þeim lista.

Kosningaloforð þeirra voru fögur og mörg, en efndir rýrar.

Nýi meirihlutinn byrjaði á því að hækka launin sín um 23%, og sagði  hinn pólitískt ráðni bæjarstjóri Ármann, að þetta væri bara leiðrétting því búið væri að skera fituna af beinunum svo svigrúmið væri til staðar, þ.e. skera niður í leikskólum og grunnskólum eins og hægt var. Það átti þó eftir að skera enn meira niður, svo sem sérkennslu, þrif og margt fleira. Fjölgað var nefndarmönnum í nefndum úr 5 í 7 og nefndum fjölgað, þrátt fyrir að samkvæmt  stefnuskrá Y-listans og líka Framsóknar ætti að fækka nefndum og spara í rekstri. Þetta var nú heldur betur siðbót eða hitt þó heldur.

Ég hvet bæjarbúa til að skoða kosningaloforð flokkana eins og þau voru fyrir síðustu kosningar og  svo efndirnar. Hér að ofan hef ég nefnt helstu loforð Y-listans (Bjartrar framtíðar) þau voru ekki mörg, en engar efndir nema í byrjun.

Fyrir síðustu kosningar lofaði Framsókn sparnaði í rekstri, að lækka laun bæjarfulltrúa um 10%, fækka nefndum með sameiningu, auk þess að skoða samstarf og sameiningu sviða í bæjarkerfinu.

Þá er það Sjálfstæðisflokkurinn. Hvað skyldi  hann oft vera búinn að lofa, til dæmis nýrri götusýn í Hamraborg, skólum í fyrirrúmi o.s.frv. Það eru þó íþróttafélögin sem alltaf fá ótaldar milljónir. Þessu er lofað bæði fyrir prófkjör af aðilum sem berjast um forustusæti í þeim flokk og síðan fyrir hverjar bæjarstjórnarkosningar. Loforð upp á yfir milljarð króna næstu árin, svo sem vegna golfklúbbshúss, stúku og félagsaðstöðu fyrir HK upp í Kór, nýs íþróttahúss í Vatnsendaskóla sem er af hinu góða en hefði ekki komist á koppinn nema af því að Gerpla er búin að sprengja utan af sér húsnæðið auk ríflegra samninga við öll íþróttafélögin.

Þetta er að mínu mati ekki rétt forgangsröðun. Hvar eru foreldrarnir þegar skólarnir eru sveltir, t.d. þegar ekki er mannsæmandi aðstaða fyrir nemendur í sumum skólum til að fá hollan mat í skólanum. Meirihlutinn, undir stjórn sjálfstæðismamanna, lofar skattalækkunum, að greiða niður skuldir og að skólamál verði í fyrirrúmi.  Þeir eru búnir að lofa á annan milljarð í aðdraganda kosninga.  Af kynnum mínum af Kópavogsbúum, trúi ég ekki að þeir séu slíkir einfeldningar að halda að þetta gerist svona.  Að hægt sé að auka útgjöld og lækka skatta án þess að skuldir aukist, sem eru reyndar nægar fyrir hér í Kópavogi. Við skuldum yfir 40 milljarða króna, þökk sé fjármálastjórn sjálfstæðis- og framsóknarmanna á velmegtarárum þeirra. Svona töfrabrögð gerast ekki á heimilum nema að verulega stór lán séu tekin og það þarf að greiða þau til baka eins og Kópavogsbær ætti að vera að gera í alvöru.

Auglýsingar, beinar og óbeinar.

Nú eru framboðin farin að reyna að ná til bæjarbúa með alls kyns áreiti. Þar á meðal eru auglýsingar í bæjarblöðunum og er þar ýmsu lofað.  Þar virðist Sjálfstæðisflokkurinn vera fyrirferðarmestur og virðist hafa úr ótrúlega miklu fjármagni að spila. Það vekur alltaf upp spurninguna um hvaðan peningarnir koma og hvort þarna á bak við fylgi einhverjar skuldbindingar, sem kannski eru ekki hagstæðar bæjarbúum.

Þá er mikið um það að fyrirmenn láti taka af sér myndir, til að vekja athygli á sér, við öll möguleg tækifæri. Þessar myndir eru síðan birtar í blöðunum. Þar má nefna þegar verið er að veita íþróttamönnum viðurkenningar. Gengur þetta svo langt, að stundum veltir maður því fyrir sér hver sé að fá viðurkenningarnar. Sumir virðast hafa einstaklega mikla sýniþörf.

Þá eru sumir stuðningsmenn farnir að lofa sína menn hástöfum og minnir það mann stundum á þann hátt sem hafður er við stóra einvalda í fjarlægum ríkjum.  Til dæmis er talað um hinn ábyrga bæjarstjóra Ármann (hefur setið sem slíkur í 2 ár) og hans miklu snilli í fjármálastjórn, enda sé hann dáður af Kópavogsbúum.  Umræddur Ármann hefur setið í bæjarstjórn í um 4 kjörtímabil og hefur átt sinn þátt í ýmsum umdeildum gjörningum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið að, og einnig skuldasöfnun bæjarins á undanförnum árum.

Að lokum.

Ég skora á ykkur bæjarbúar að skoða vel síðustu loforð og efndir áður en þið farið að kjósa og muna líka að Y-listinn er nú kominn sem „úlfur í sauðagæru“ inní Bjarta framtíð.

Þar sem framboðin virðast hafa mismunandi fjárráð til að koma sínum hugmyndum og áherslum á framfæri geta menn þurft að leggja smá vinnu í að kynna sér þetta.

Eftir yfirlegu hef ég tekið þá ákvörðun að styðja Næstbesta flokkinn (Sundlaugavinir) í komandi kosningum.  Þessi listi hefur listabókstafinn X.  Þar er Hjálmar Hjálmarsson í oddvitasæti, en hann hefur að mínu mati staðið sig vel sem bæjarfulltrúi á því kjörtímabili sem er að ljúka, verið sanngjarn en fylginn sér, staðið vel á sínum stefnumálum og hugsað um hag bæjarbúa.

-Ásdís Ólafsdóttir, íþróttakennari í Kópavogi.

 

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Kópavogsblaðið komið út

Stolt Kópavogs eru á forsíðu Kópavogsblaðsins að þessu sinni. Karlalið Breiðabliks er komið í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu eftir að hafa slegið út Struga frá Norður-Makedóníu. Blikar leika sex leiki í

Mygla hjá velferðarsviði

Velferðarsvið Kópavogsbæjar er ekki lengur með starfsemi í Fannborg 6. Slæm loftgæði eru í húsinu sem haft hefur áhrif á starfsfólk hússins og sýna nýjustu mælingar há gildi myglugróar. Því

Stuð á Hamraborg Festival

Hamraborg Festival fór fram í lok ágúst í Hamraborg og í menningarhúsunum í Kópavogi, en Hamraborg Festival er þverfagleg hátíð með sérstakri áherslu á myndlist, staðbundin verk, gjörningalist og samfélagslega

Króníkan opnar í Gerðarsafni

Veitingastaðurinn Króníkan opnaði í sumar í Gerðarsafni. Samningur við nýjan rekstraraðila var undirritaður 11.maí, á afmælisdegi Kópavogsbæjar. Bragi Skaftason og Sigrún Skaftadóttir, systkini úr Vesturbæ Kópavogs, hafa tekið reksturinn að sér