Breski miðillinn Kay Cook, sem starfar hjá Sálarrannsóknafélagi Íslands og er búsett hér á landi, fullyrðir að á lóðinni þar sem húsið Hamraborg 1 stendur, hafi áður fyrr verið bænahús eða samkomusalur þar sem hafi verið stundað mikið bænahald.

Engar heimildir eru til um slíkt. Kay segir að um leið og hún hafi komið í sal Sálarransóknarfélagsins, sem er á þriðju hæð hússins, hafi hún fundið sterkt fyrir jákvæðri orku sem hún tengir við bænahald. Undir þetta taka aðrir miðlar félagsins sem segja það ekki tilviljun hversu notalegt andrúmsloftið sé í sal Sálarransóknarfélagsins og reyndar í húsinu öllu. Magnús Harðarson, forseti Sálarransóknafélags Íslands, segir að samkvæmt riti Sögufélags Kópavogs um kampa og breska herinn, sem kom út fyrr á þessu ári, komi fram að stór kampur hafi verið á þessu svæði á stríðsárunum 1941- 1943.
„Ef einhverntímann er ærin ástæða til að biðjast fyrir, þá er það einmitt á stríðstímum,“ segir Magnús, og minnir á að miðlarnir Bíbí Ólafsdóttir og Þórhallur Guðmundsson verða með opin skyggnilýsingafund í húsakynnum félagsins, sunnudaginn 8. desember kl. 20:00.