Stórstjörnurnar streyma í Kópavoginn. Fyrst var það Justin Timberlake og nú er það breski pönkarinn Glen Matlock úr pönksveitinni eilífu Sex Pistols sem heiðra mun Kópavog með nærveru sinni í sumar.
Glen Matlock spilaði, og spilar reyndar enn, á bassa í Sex Pistols og samdi megnið af lögum sveitarinnar á breiðskífunni Never Mind the Bollocks sem olli straumhvörfum í rokksögunni.
Matlock mun koma fram á pönkhátíð á Spot í byrjun maí sem haldin verður í tilefni Kópavogsdaga, menningarhátíðar bæjarins. Hinar síungu pönksveitir Fræbbblarnir og Q4U munu einnig koma fram.