Bergljót vill leiða lista Samfylkingarinnar

Bergljót Kristinsdóttir.

Bergljót Kristinsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar gefur kost á sér í fyrsta sæti  á lista Samfylkingarinnar í Kópavogi. Yfirlýsing hennar er svohljóðandi:

„Dagana 18 – 19 febrúar fer fram flokksval um þrjú efstu sætin á lista Samfylkingarinnar í Kópavogi. Þátttaka er heimil félagsmönnum og skráðum stuðningsmönnum Samfylkingarinnar sem búa í Kópavogi. Hægt er að skrá sig sem stuðningsaðila eða félaga til hádegis þann 11. febrúar á slóðinni https://xs.is/takathatt.

Á yfirstandandi kjörtímabili hef ég ásamt Pétri Hrafni Sigurðssyni staðið vaktina í bæjarstjórn fyrir hönd Samfylkingarinnar. Pétur víkur nú af vettvangi og því bíð ég mig fram til að taka við keflinu sem oddviti. Reynsla og þekking á þeim mörgu málaflokkum sem unnið er að á vettvangi bæjarmála er mjög mikilvæg. Því miður er það svo að fáir endast mjög lengi í þessum störfum og því kvarnast hratt úr reynslubanka þeirra sem bera keflið á hverjum tíma. Ég tel nauðsynlegt að viðhalda þekkingu bæjarfulltrúa á milli kjörtímabila því gjörðir og ákvarðanir eiga jú að halda lengur en í  fjögur ár og þær þarf að vera hægt að svara fyrir síðar meir.

Á þessu kjörtímabili hefur Samfylkingin barist fyrir ýmsum málum en eins og gefur að skilja, þá fá minnihlutaflokkar sjaldan óskir sínar uppfylltar. Við höfum oftast reynt að vinna í sátt og samlyndi við aðra bæjarfulltrúa og með því oft uppskorið betur en ella.

Hér eru nokkur mál sem við höfum lagt áherslu á:

  • Breytt ferli skipulagsmála þar sem aðgengi íbúa að tillögum og skoðanaskiptum er gert hærra undir höfði.
  • Að lýðheilsa sé höfð að leiðarljósi við þéttingu byggðar með góðum útivistarsvæðum fyrir íbúa. Nú síðast með tillögu um ylströnd/heitan pott á Kársnesi.
  • Að tryggja að Kópavogsbær nýti öll tækifæri til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og hvetji íbúa og fyrirtæki til hins sama m.a. með tillögu minni um trjáræktarsvæði fyrir almenning og fyrirtæki í upplandinu sem samþykkt var fyrir tveimur árum.
  • Að gera íbúum sem eiga erfitt með kaup á húsnæði á opnum markaði kleift að verða sér úti um öruggt húsnæði hvort sem er til leigu eða kaups í samræmi við húsnæðisstefnu Kópavogs.
  • Að geta boðið eins árs börnum upp á leikskólapláss. Nú stefnir í óefni vegna fjölgunar barna og engrar fjölgunar leikskólaplássa.
  • Að samþætta þjónustu við eldri borgara. Í dag er hún annars vegar á hendi heilsugæslunnar og hins vegar á hendi Kópavogsbæjar. Tillaga Samfylkingarinnar um þetta mál var tekin til greina en hægt gengur að koma þessu í gagnið.
  • Að auka íslenskukennslu barna með íslensku sem annað mál. Samfylkingin hefur haldið þessu málefni á lofti í öllum fjárhagáætlunargerðum og fékk samþykkt aukið fjármagn í málaflokkinn fyrir þremur árum.
  • Að gera gögn um rekstur bæjarins aðgengilegri fyrir bæjarfulltrúa sem eru eftirlitsaðilar með rekstri bæjarins og bjóða bæjarbúum upp á betri upplýsingar um reksturinn.

Þessi mál ásamt mörgum fleirum þurfa okkar stuðning áfram og til þess bíð ég fram krafta mína á komandi kjörtímabili. Ég vona að ég fái að halda áfram að vinna að betra bæjarfélagi í samvinnu við bæjarbúa og aðra ráðsmenn bæjarins.“

Umræðan

Fleiri fréttir

Lyfjaskolp við Gvendarbrunna – skipulagsslys við Gunnarshólma

AðsentMeirihluti bæjarstjórnar Kópavogs hefur samþykkt að skoða alvarlega áform um að reisa heilsutengt ofurþorp fyrir 15.000 manns við Gunnarshólma, í miðju vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins. Svæðið er þekkt flóðasvæði þar sem áin Suðurá flæðir

Íbúar völdu saunur og skautasvell

Infrarauðar saunur og yfirbyggðir stigar í rennibrautir beggja sundlauga Kópavogs, vélfryst skautasvell í Kópavogsdal, bleikir bekkir til minningar um Bryndísi Klöru Birgisdóttur, aðstaða til sjósunds á Kársnesi og endurnýjun og

Höskuldur og Thelma íþróttakarl og íþróttakona ársins

Höskuldur Gunnlaugsson knattspyrnumaður úr Breiðabliki og Thelma Aðalsteinsdóttir fimleikakona úr Gerplu voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2024.  Kjörinu var lýst á íþróttahátíð Kópavogs í Salnum miðvikudaginn 8.

Leifur Eiríksson Þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar, Unnar Atli Guðmundsson plokkari, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri og Ásthildur Helgadóttir sviðsstjóri umhverfissviðs.

Plokkari ársins

Unnar Atli Guðmundsson er plokkari ársins í Kópavogi. Bæjarstjóri Kópavogs Ásdís Kristjánsdóttir heiðraði Unnar í Þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar en þangað sækir Unnar ruslapoka fyrir plokkið, sem unnið er í sjálfboðavinnu. Unnar