Samdóma álit viðmælenda Kópavogsfrétta í Bókasafni Kópavogs á dögunum er að sólpallurinn við safnið er eitt best geymda leyndarmál bæjarins. Í sólinni er fátt betra en að lesa nýjasta slúðrið, dagblöð eða taka með sér bók út á pallinn. Bækur, diskar og dvd myndir eru í miklu úrvali og starfsfólkið leggur mikið á sig að finna það sem hentar hverjum og einum í sumarlesningunni.
Sumarlestur krakkanna er komið í fullan gang hjá safninu. Nú þegar hafa skráð sig 156 börn og sífellt bætist við. Úr barnadeild fara heilu staflarnir af bókum þegar fólk er að búa sig af stað í sumarleyfisferðir og þá hækkar stöðugt í Lukkupottinum þar sem Happamiðarnir lenda. Það er því tilvalið að koma við í Bókasafni Kópavogs með börnin áður en farið er af stað í frí og ef til vill um leið hafa þessar ljóðlínur Sidney Greenberg í huga:
„Lífið er ferðalag,
ekki áfangastaður;
og hamingjan er
ekki þar heldur hér;
ekki á morgun,
heldur í dag.“
Opnunartímar:
Opið er í Bókasafni Kópavogs til 19 á virkum dögum, nema á föstudögum en þá er opið til klukkan 17. Á laugardögum er opið frá 13 -17. Lindasafn hefur opið í sumar frá 12 -18 á virkum dögum, nema á föstudögum en þá er opið frá 12-16.