Besta helgi sumarsins

Daði Rafnsson, yfirþjálfari yngri flokka Breiðabliks.
Daði Rafnsson, yfirþjálfari yngri flokka Breiðabliks.

Stemningin sem myndast á Símamótinu er einstök. Yfir eina helgi flykkjast þúsundir knattspyrnustúlkna og aðstandenda þeirra í Kópavoginn og taka þátt í stærsta fótboltamóti landsins. Þær yngstu eru fimm ára og þær elstu eru sjö ára. Mæður og feður hlaupa á milli valla til að horfa á eldri og yngri systur etja kappi við buffum skreytta kola og stríðsmáluð andlit. Þetta er stóra stundin þar sem stúlkur fá að njóta þess að spila með vinkonum sínum. Bakpokaklyfjaðir pabbar leiða syngjandi hópa milli valla og mömmur þurrka tár og gæta að því að ávallt sé stutt í næsta vatnsbrúsa. Ef þú vilt ekki fá fótboltalög á heilann skaltu halda þig fjarri.

Breiðablik er stolt af Símamótinu. Það hefur vaxið og dafnað í þrjátíu ár og á bakvið tjöldin er herskari af sjálfboðaliðum að dæma leiki, elda og bera fram mat, gæta að gistirýmum, skipuleggja mótið, hlaupa með úrslit, manna sjúkratjöld, þrífa ganga og leggja sitt af mörkum til að gera mótið sem best úr garði. Teymið á bakvið mótið er ósýnilegt en almáttugt og það má þakka þeim í hljóði á kvöldin fyrir þeirra starf.

Barist um boltann á Simamótinu í fyrra í leik Breiðabliks og Stjörnunnar. Mynd: Breiðablik.
Barist um boltann á Simamótinu í fyrra í leik Breiðabliks og Stjörnunnar. Mynd: Breiðablik.

Mót í þróun
Keppt er í 7. 6. og 5. flokkum kvenna. Undanfarin ár hafa átt sér stað ýmsar breytingar á keppnisfyrirkomulagi. Í tveimur yngstu flokkunum er nú keppt í 5 manna liðum. Reyndir yngri flokka þjálfarar Breiðabliks hafa tekið þátt í að leiða þá þróun sem er orðin að raunveruleika í keppni þeirra yngstu að þau fá nú fleiri snertingar við boltann og fleiri tækifæri til að sóla, skjóta og verjast. Stúlkurnar munu búa að því lengi að kunna betur að fara með boltann og fá stærra hlutverk.
Nú er ekki lengur keppt í hefðbundinni ABCD keppni. Þjálfarar reyna að raða liðum í viðeigandi keppni í byrjun móts en ef hún reynist of þung fær liðið verkefni sem er meira við hæfi daginn eftir. Sömuleiðis ef keppnin er of létt. Við köllum þetta keppni og alveg eins og í Olsen Olsen við mömmu og pabba reynum við að vinna alla leiki. Stundum tekst það og stundum ekki. En maður á alltaf að skemmta sér í fótbolta. Frá því að við breyttum þessu fyrirkomulagi hefur jöfnum leikjum fjölgað og ójöfnum fækkað. Á síðasta degi eiga flestir möguleika á að vinna bikar. Gleði og ánægja hefur aukist sömuleiðis.

Það er alltaf líf og fjör á Símamótinu.
Það er alltaf líf og fjör á Símamótinu.

Skemmtilegar minningar
Ég hef fylgt fjölda stúlkna eftir á Símamótið og á margar skemmtilegar minningar. Undanfarin ár hefur fjölgað mjög í kvennaflokkum félagsins og því er hlaupið á milli valla til að ná öllum leikjum. Ég hef þjálfað stelpur sem hafa tapað í undanúrslitum fjögur ár í röð á því að draga hagstæðara spil en mótherjarnir. Í fyrra fundum við svo þjálfara með ótrúlega hæfileika í spilagöldrum en Rósa Hugosdóttir dróg hvert spilið á fætur öðrum sem kom liðinu hennar vel. Úrslitaleikurinn við Keflavík í 5. flokki í fyrra var jafn og spennandi. Liðin gáfu fá færi á sér og spiluðu alla leið í gegnum framlengingu. Þá mætti Rósa og dróg betra spil og stelpurnar trylltust úr fögnuði. Það var skrýtið að vinna þannig en stelpurnar okkar höfðu líka tapað þannig áður. Engum varð meint af nema kannski nokkrum hjartveikum foreldrum. Ef maður vinnur mótið sem þjálfari er ekki séns að sleppa með þurran þráð undan stelpunum. Þær tæma úr brúsunum yfir mann eins og það sé eitthvað fyndið. Ég mæli með því að allar stelpur á mótinu tæmi úr brúsanum sínum yfir þjálfarann að minnsta kosti einu sinni sama hvernig gengur. Ég mæli með því að þjálfarar hafi með sér föt til skiptanna.

Áður en mótinu var skipt í jafningjamót áttum við mjög ójafnan leik við annað lið. Ég stöðvaði leikinn í stöðunni 4-0 eftir fimm mínútur og lofaði stelpunum öllum máltíð á Subway ef þær gætu skorað mark með því að allar í liðinu sendu boltann á milli sín. Leikurinn varð mjög furðulegur í kjölfarið en endaði 6-0 og ég varð sex þúsundum krónum fátækari. Ég er hættur að lofa Subway því annað loforð um skallamörk fór illa og ég er stórskuldugur í samlokum.

Í leik fyrir tveimur árum þurfti eitt liðið okkar að jafna leikinn til að komast í undanúrslit. Þegar hálf mínúta var eftir ákváðu tvær stúlkur sem voru útaf að best væri að biðja til guðs almáttugs, lokuðu augunum og lögðust á bæn. Þjálfarinn hristi höfuðið yfir þessu en þá sólaði miðjumaðurinn sig í gegn og skoraði. “Það virkaði” hrópuðu leikmennirnir og máttur bænarinnar þótti sannaður. Sama sumar lofuðu þjálfararnir að allir leikmenn flokksins (80 stelpur) mættu rassa þá ef ákveðin markmið næðust. Fjórir þjálfarar fengu samtals 80 bolta hver fljúgandi í áttina af afturendanum á sér á næstu æfingu eftir mót. Sem betur fer voru þær þreyttar og miðið aðeins skakkt.

Eitt árið áttust við Breiðablik og Stjarnan í bikarkeppni kvenna sömu helgi og Símamótið fór fram. Þá fylltist stúkan af þátttakendum sem vildu horfa á stjörnurnar sínar spila. Eitthvað sló í brýnu milli þjálfara liðanna. Daginn eftir var umtalað þegar annar þjálfarinn sagði hinum að vera ekki að tala við sig en bara mjög ókurteislega.

Það er mjög gaman að fylgjast með mótinu þótt maður sé ekki sjálfur að þjálfa á því. Eitt sumarið dæmdi ég leiki í 6. flokki kvenna og tók eftir tveimur snaggaralegum leikmönnum. Þær komu svo báðar til mín í Knattspyrnuskóla KSÍ á Laugarvatni þegar þær voru orðnar fjórum árum eldri og eru nú búnar að spila landsleiki fyrir yngri landsliðin. Talandi um dómara þá kom einn þjálfari í 7. flokki kvenna til mótsstjórnar og vandaði dómaranum í leik sínum ekki kveðjurnar. Hún var spurð hvort henni finndist virkilega að Alfreð Finnbogason væri lélegur dómari.

Góða skemmtun
Mót barna eiga að vera jákvæð og skemmtileg. Þjálfarar þurfa að passa sig að muna sitt hlutverk. „Þið þurfið að berjast um alla bolta!“ sagði einn og var spurður á móti hvort það væru margir boltar inná. Foreldrar þurfa að skilja upplifun barnsins. „Hvað er staðan?“ spurði ung dama sem kom útaf í spennandi úrslitaleik. Tvö-núll sagði þjálfarinn. „Fyrir hverjum?“ spurði þá væntanlegur sigurvegari. Ég vona að þið skemmtið ykkur vel á bestu helgi sumarsins.

Daði Rafnsson, yfirþjálfari yngri flokka Breiðabliks.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Grindvíkingar í Kópavogsbúið

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, afhenti Fannari Jónassyni, bæjarstjóra Grindavíkur lykla að íbúðum í gamla Kópavogsbúinu við hátíðlega viðhöfn miðvikudaginn 10. júlí en íbúðirnar verða til afnota fyrir eldra fólk úr

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður VG og félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Ert þú í tengslum?

Aðsent Ert þú í tengslum? Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður VG og félags- og vinnumarkaðsráðherra. Félagsleg einangrun er vaxandi vandamál í nútímasamfélagi og rannsóknir sýna að til mikils er að vinna

Pikka upp dósir í Kópavogi

Nú geta íbúar Kópavogs sem vilja styrkja iðkendur íþróttafélaga með dósapening skráð sig á Pikka.is og látið iðkendur koma eftir pöntun að sækja hjá sér dósirnar. Hér áður fyrr var það algengt

Niðurlagning Héraðsskjalasafns Kópavogs

Skaðræðisgjörningur bæjarstjórnar Kópavogs Bæjarstjórn Kópavogs ákvað á fundi sínum 25. apríl 2023 með sex atkvæðum meirihlutans gegn fimm atkvæðum minnihlutans að leggja niður Héraðsskjalasafn Kópavogs. Þar fetaði bæjarstjórnin í slóð