Betur má ef duga skal á Kópavogstúni

Hressingarhælið í Kópavogi.

Aðsend grein:
Í samræmi við 8. gr. laga Kópavogsfélagsins var félaginu slitið þann 11. maí 2015, á 60 ára afmælisdegi Kópavogskaupstaðar. Félagið var stofnað í mars 2013 samkvæmt einróma samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs 22. janúar sama ár og voru stofnfélagar um 80 talsins. Samhliða samþykkt um stofnun félagsins samþykkti bæjarstjórn þá jafnframt einróma framkvæmdaáætlun sem gerði ráð fyrir að endurbótum á Hressingarhælinu og Kópavogsbænum og umhverfi húsanna á Kópavogstúni yrði lokið og starfsemi hafin í þeim í dag, 11. maí 2015. Um leið og stjórn Kópavogsfélagsins fagnar þeim endurbótum sem þegar hafa verið gerðar á umræddum byggingum lýsir hún vonbrigðum með tregðu bæjaryfirvalda til að fylgja þeirri framkvæmdaáætlun sem samþykkt var í janúar 2013.

Kópavogsbærinn.

Meginverkefni Kópavogsfélagsins var að ljúka hugmyndavinnu um starfsemi í Hressingarhælinu og Kópavogsbænum og er stjórn félagsins afar þakklát þeim fjölmörgu félagsmönnum og öðrum áhugasömum bæjarbúum sem tóku þátt í hugmyndavinnunni. Stjórn Kópavogsfélagsins skilaði tillögum sínum til bæjarstjórnar og voru þær samþykktar einróma í bæjarstjórn 10. júní 2014. Samþykkti bæjarstjórn þá að fela bæjarstjóra að hefja undirbúning að starfsemi í Hressingarhælinu og Kópavogsbænum. Starfsemin skyldi rekin sameiginlega undir heitinu Lista- og menningarsetrið á Kópavogstúni. Samkvæmt fyrri samþykkt bæjarstjórnar átti þessi starfsemi að hefjast 11. maí 2015. Stjórn Kópavogsfélagsins er ekki kunnugt um að bæjarstjóri hafi hafið undirbúning að starfseminni eins og bæjarstjórn fól honum þó með samþykkt sinni 10. júní 2014.

Margt hefur áunnist í málefnum Kópavogstúns og hinna merku bygginga þar síðan starfshópur var stofnaður snemma árs 2012 til að huga að endurreisn bygginganna. Húsunum hefur verið bjargað frá glötun og raddir um að láta þau víkja heyrast ekki lengur. Fyrir liggur raunhæf áætlun um endurreisn bygginganna ásamt samþykkt bæjarstjórnar um starfsemi í þeim.

En betur má ef duga skal. Stjórn Kópavogsfélagsins hvetur bæjaryfirvöld til þess að finna hjá sér aukinn metnað til þess að fylgja samþykktum sínum eftir. Sjálft Kópavogstún er ein af perlum Kópavogs. Þar er að finna afar merkilegar minjar úr sögu bæjarins og þjóðarinnar. Kvenfélagið Hringurinn sýndi einstakan stórhug þegar það reisti Hressingarhælið fyrir berklasjúka 1926 og rak Kópavogsbýlið af miklum myndarskap um árabil. Bærinn þar er einmitt vitnisburður um búsetu og búskaparhætti kynslóðanna. Það væri til marks um virðingu okkar sem nú lifum í garð fyrri kynslóða að sýna byggingunum og sögu þeirra þá virðingu að ljúka endurreisn þeirra og hefja þar starfsemi hið fyrsta.

Kópavogstúni, 11. maí 2015

Stjórn Kópavogsfélagsins
Margrét Björnsdóttir, formaður.
Garðar H. Guðjónsson, varaformaður.
Kristinn Dagur Gissurarson, gjaldkeri.
Hrafn Andrés Harðarson, ritari.
Valgerður Einarsdóttir, meðstjórnandi.
Þorleifur Friðriksson, meðstjórnandi

Umræðan

Fleiri fréttir

Leifur Eiríksson Þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar, Unnar Atli Guðmundsson plokkari, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri og Ásthildur Helgadóttir sviðsstjóri umhverfissviðs.

Plokkari ársins

Unnar Atli Guðmundsson er plokkari ársins í Kópavogi. Bæjarstjóri Kópavogs Ásdís Kristjánsdóttir heiðraði Unnar í Þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar en þangað sækir Unnar ruslapoka fyrir plokkið, sem unnið er í sjálfboðavinnu. Unnar

Aðventuhátíð Kópavogs

Aðventuhátíð í Kópavogi verður haldin með pompi og pragt, laugardaginn 30. nóvember. Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri tendrar ljósin á jólatré Kópavogsbæjar við menningarhúsin við hátíðlega athöfn kl. 17. Jólasveinar bregða á

Fjárhagsáætlun samþykkt

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs að lokinni seinni umræðu í vikunni Einnig var samþykkt þriggja ára áætlun fyrir tímabilið 2026-2028. Í tilkynningu frá Kópavogsbæ segir að

Sóley heimsmeistari

Sóley Margrét Jónsdóttir varð í síðustu viku heims­meist­ari í kraft­lyft­ing­um með búnaði í +84 kg flokki og tryggði sér um leið réttinn til að keppa á Heimsleikunum (World Games) sem