Hjörtu margra vesturbæinga tóku nokkur aukakipp í vikunni þegar fréttist að búið væri að opna biðskýlið gamla eða „Sigga-sjoppu“ á ný. Margir eiga góðar minningar frá gömlu sjoppunni frá fyrri tíð sem var eins konar fyrsta félagsmiðstöð Kópavogs.
Söluturninn kallast nú Matstöðin en eigendur hennar eru þeir Geir Brynjólfsson, matreiðslumaður, og Brynjólfur Jósteinsson, athafnamaður. Geir hefur unnið meðal annars á Haust restaurant, Fosshóteli, Grillmarkaðnum og Forréttabarnum. „Við vorum að leita að heppilegu húsnæði fyrir reksturinn okkar þegar við rákumst á auglýsingu frá Atlantsolíu um að rekstraraaðila vantaði í hús í þeirra eigu á Kópavogsbraut,“ segir Geir. „Hugmynd okkar var sú að opna stað með góðum heimilismat til að taka með á vinnustaðinn, eða fyrir fólk sem er of önnum kafið í vinnu til að elda að taka með matinn heim.“ Viðtökurnar hafa verið framar öllum vonum, enda greinilegt að mörgum þykir vænt um gamla söluturninn sem staðið hefur tómur í um þrjú ár. „Okkur hefur verið mjög vel tekið hér, bæði af starfsfólki í hverfinu og ekki síst íbúum í nágrenninu. Það er greinilegt að húsnæðið hefur mikið tifinningalegt gildi fyrir íbúa. Margir hafa komið til okkar ánægðir með að starfsemi sé komin í húsið. Einnig er fólk mjög ánægt með matinn sem við bjóðum,“ segir Geir og nefnir að þeir félagar ætli að hafa Matstöðina opna alla virka daga frá klukkan 7-9 í morgunmat, 11-14 í hádegismat og frá klukkan 17–20 á kvöldin.