Birna og Steini á Stöð 3


Birna og Steini eru á vaktinni á Stöð 3 á Dalvegi.

Birna og Steini eru lögreglumenn á varðsvæðinu Kópavogur og Breiðholt. Þau eru hluti af útkallsliðinu á Stöð 3 á Dalvegi. Við fengum þau í stutta „yfirheyrslu“ um starf þeirra á Stöð 3.

Birna kemur að norðan og hóf störf árið 2013.

Hvað finnst þér skemmtilegast við að vera í lögreglunni?
Það er fjölbreytnin, það er enginn dagur eins. En svo er gaman að vera kona í karlaumhverfi.

Hvað er gaman við það?
Ég veit ekki alveg hvað það er, en þetta er áskorun fyrir mig og það er oft gott að vera með bæði karl og konu saman í útköllum.

Hvernig er að vinna í Kópavogi og Breiðholti?
Það er mjög skemmtilegt. Hér eru góðir vinnufélagar og í alla staði flottur hópur.

Steini er í fyrsta hópi þeirra sem sækir nýja lögreglunámið hjá Háskólanum á Akureyri og starfar á stöð 3 á Dalvegi í sumar.

Hvernig er að vera kominn á vakt í Kópavogi/Breiðholti?
Það er fínt. Ég valdi að fá að koma hingað.

Af hverju vildir þú það?
Hér eru fjölbreyttustu verkefnin, hverfið er svo blandað. Svo var ég búinn að heyra að það væri góður mórall á lögreglustöðinni og það hefur verið tekið vel á móti mér hér.

Hvað fékk þig til að vera lögreglumaður?
Þetta er spennandi starf, skemmtilegt sambland af inni og útivinnu.