Bjarni Frímann Bjarnason hlýtur viðurkenningu úr styrktarsjóði Önnu K. Nordal

Laugardaginn 3. janúar verða tónleikar í Salnum með lágfiðlu- og píanóleikaranum Bjarna Frímanni Bjarnasyni og söngvaranum Kristjáni Jóhannessyni kl. 16:00 og er aðgangur ókeypis.  Á tónleikunum munu  þeir flytja fjölbreytta efnisskrá ásamt Jónasi Ingimundarsyni þar sem lágfiðla, píanó og söngur koma við sögu.

Tilefni tónleikanna er að Bjarni Frímann mun fá afhenta viðurkenningu úr styrktarsjóði Önnu K. Nordal.  Er þetta í fimmtánda sinn sem viðurkenning er veitt úr sjóðnum en honum ber að styrkja efnilega tónlistarnema í söng og fíólínspili. Áður hafa ungir efnilegir tónlistarnemar hlotið styrk úr sjóðnum sem nú eru starfandi tónlistarmenn. Má þá meðal annarra nefna Svein Dúa Hjörleifsson, Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur, Ara Vilhjálmsson og Gissur Pál Gissurarson svo einhverjir séu nefndir.

Styrktarhafi síðasta árs var Kristján Jóhannesson sem mun koma fram með Bjarna Frímanni á laugardaginn.

Sjóðurinn er stofnaður af Önnu Karólínu Nordal sem fæddist í Vesturheimi árið 1902 og lést árið 1998. Hún bjó alla tíð í Kanada og kom aldrei til Íslands en hafði engu að síður sterkar taugar til landsins og sýndi ættlandi sínu og Íslendingum mikla ræktarsemi eins og sjóðurinn er fagur vitnisburður um.  Anna var alþýðukona og mikill unnandi tónlistar og vildi styrkja ungt tónlistarfólk í námi og hvetja til frekari árangurs.

Bjarni Frímann Bjarnason er fæddur árið 1989 og hóf að leika á fiðlu fjögurra ára gamall og stundaði nám hjá Lilju Hjaltadóttur og Guðnýju Guðmundsdóttur. Hann lauk prófi í lágfiðluleik frá Listaháskóla Íslands vorið 2009. Sama ár bar hann sigur úr býtum í einleikarakeppni skólans og Sinfóníuhljómsveitar Íslands og lék lágfiðlukonsert Bartóks með sveitinni á tónleikum í janúar. Frá 2011 hefur hann stundað nám í hljómsveitarstjórn undir handleiðslu Fred Buttkewitz við Tónlistarháskólann Hanns Eisler í Berlín. Vorið 2012 vann hann fyrstu verðlaun í Hanns Eisler-keppninni í Berlín fyrir frumflutning á píanótilbrigðum eftir Viktor Orra Árnason ásamt öðrum verðlaunum fyrir frumflutning á píanókonsert eftir Ansgar Beste. Sama ár hlaut hann undirleikaraverðlaunin í ljóðasöngskeppni sem kennd er við Paulu Salomon-Lindberg í sömu borg.

Bjarni hefur komið fram víðsvegar um Evrópu, bæði sem strengja- og hljómborðsleikari. Hann stjórnar strengjasveitinni Skark, sem hefur á undanförnum árum staðið fyrir nýstárlegum flutningi nútímatónlistar. Þá stjórnaði hann Sinfóníuhljómsveit Unga Fólksins á tónleikum hennar á Siglufirði og í Reykjavík í júlí 2014.

Kristján Jóhannesson fæddist í Reykjavík árið 1992, en er uppalinn í Kópavogi. Hann hóf söngnám við Söngskóla Sigurðar Demetz árið 2008 og lauk þaðan burtfararprófi vorið 2013. Kennarar hans voru Sigrún Hjálmtýsdóttir, Kristján Jóhannsson og Keith Reed. Hann stundar nú framhaldsnám við Konservatoríið í Vínarborg, þar sem aðalkennari hans er Uta Scwabe.

Af sviðshlutverkum Kristjáns má nefna Nautabanann í Carmen, sem hann söng hjá Íslensku Óperunni haustið 2013 og Riccardo í I Puritani með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í byrjun sama árs. Auk þess var hann meðlimur í fastakór Íslensku óperunnar og söng með kórnum í óperunum La Boheme og Il Trovatore.

Bjarni Frímann Bjarnason og Kristján Jóhannesson.
Bjarni Frímann Bjarnason og Kristján Jóhannesson.

 

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Kópavogsblaðið komið út

Stolt Kópavogs eru á forsíðu Kópavogsblaðsins að þessu sinni. Karlalið Breiðabliks er komið í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu eftir að hafa slegið út Struga frá Norður-Makedóníu. Blikar leika sex leiki í

Mygla hjá velferðarsviði

Velferðarsvið Kópavogsbæjar er ekki lengur með starfsemi í Fannborg 6. Slæm loftgæði eru í húsinu sem haft hefur áhrif á starfsfólk hússins og sýna nýjustu mælingar há gildi myglugróar. Því

Stuð á Hamraborg Festival

Hamraborg Festival fór fram í lok ágúst í Hamraborg og í menningarhúsunum í Kópavogi, en Hamraborg Festival er þverfagleg hátíð með sérstakri áherslu á myndlist, staðbundin verk, gjörningalist og samfélagslega

Króníkan opnar í Gerðarsafni

Veitingastaðurinn Króníkan opnaði í sumar í Gerðarsafni. Samningur við nýjan rekstraraðila var undirritaður 11.maí, á afmælisdegi Kópavogsbæjar. Bragi Skaftason og Sigrún Skaftadóttir, systkini úr Vesturbæ Kópavogs, hafa tekið reksturinn að sér