Kópavogsbúar eru afskaplega stoltir af því mikla og öfluga íþróttastarfi sem unnið er í bænum. Mikilvægt er að bæjaryfirvöld haldi áfram að styðja við hið öfluga starf hjá íþróttafélögunum í Kópavogi. Enda er það margsannað að íþróttir eru besta forvörn sem til er gegn óheilbrigðu líferni og ýmsum lífsstílsjúkdómum sem hrjá nútímamanninn. Björt framtíð mun því berjast fyrir því að aðstaða íþróttafélaga verði áfram með þvi besta sem gerist á landinu.
Frambjóðendur Bjartrar framtíðar eru margir hverjir mikið áhugafólk um íþróttir og útivist. Við erum með þjálfara og fyrrum forystumenn í íþróttafélögunum á listanum og það fólk mun leggja sitt lóð á vogarskálarnar að áfram verði vel hlúð að félögunum í bænum. HK og Breiðablik eru með fjölmennustu íþróttafélögum á landinu, engin golfklúbbur á landinu er með fleiri yngri iðkendur en GKG, hestamennska blómstrar í bænum og Gerpla ber höfuð og herðar yfir önnur fimleikafélög á landinu. Einnig er öflugt starf í smærri félögum eins og hjá Siglingaklúbbnum Ými, Skotfélaginu, dansíþróttafélögunum og ekki má gleyma íþróttafélagi eldri borgara Glóð. Síðast en ekki síst þarf að efla stuðning við almenningsíþróttir.
Stuðningur við íþróttir smellpassar við þá framtíðarsýn Bjartrar framtíðar að bæjaryfirvöld séu þjónustufyrirtæki fyrir bæjarbúa. Við lítum á að tilgangur bæjaryfirvalda sé að veita innihaldsríka þjónustu sem byggir á þörfum mismunandi hópa. Það er unnið kraftmikið íþróttastarf í bænum og það verður að þróa og byggja upp áfram. Við viljum styðja við frumkvæði og kraft íþróttafélagana sjálfra og hjálpa þeim í að gera betur í þjónustu við bæjarbúa. Íþróttafélögin eru að gera góða hluti og bæjarfélagið verður að vinna með þeim að frekari uppbyggingu.
-Andrés Pétursson skipar 5. sæti hjá Bjartri framtíð í Kópavogi