Björt framtíð vill sýna virðingu í verki

Ragnheiður Bóasdóttir  er MA í náms-­ og starfsráðgjöf og starfar sem sérfræðingur á skrifstofu menntamála í mennta-­ og menningarmálaráðuneytinu. Hún skipar 16. sæti á lista Bjartrar framtíðar í Kópavogi.
Ragnheiður Bóasdóttir er MA í náms-­ og starfsráðgjöf og starfar sem sérfræðingur á skrifstofu menntamála í mennta-­ og menningarmálaráðuneytinu. Hún skipar 16. sæti á lista Bjartrar framtíðar í Kópavogi.

Allir hafa fordóma. Ef einhver heldur öðru fram segir hann ekki satt. Það er mikill munur á því að segjast ekki hafa fordóma og því að láta ekki fordóma stjórna lífi sínu. Einelti er eitt birtingarform fordóma. Þeir sem beita einelti sýna fordóma sína í verki. Þeir hlýða innri hvöt um að meiða, særa eða pína og halda ekki aftur af þeirri þörf að sýna vald sitt. Ég ætla ekki þeim sem leggja í einelti að vera vondar manneskjur. Þvert á móti tel ég að viðkomandi skorti hömlur gegn því að misnota vald sitt gagnvart annarri manneskju.

Til að vera samkvæm sjálfri mér vil ég taka dæmi um eigin fordóma. Ef ég sé ungling með mörg göt og hringi í eyrum, nefi og vör fer í gegnum huga mér að þarna megi búast við vandræðum af hálfu viðkomandi. Þessi ósjálfráða hugsun tengist líklega einhverri staðalmynd af uppreisnarunglingi sem ég hef tekið upp úr kvikmynd eða heyrt sögur um. Gott og vel, hvað geri ég þá? Leyfi ég þessari mynd og hugsun að taka völdin og byrja að spinna sögu í huga mér um þessa manneskju sem ég veit ekkert um? Nei, það geri ég ekki. Ég spyr mig hvers vegna ég hafi fengið þessa mynd í hugann og svara þeirri spurningu með ofangreindum rökum – ég fékk hana að láni úr heimi sem kannski er raunverulegur en, það sem líklegra er, kannski ekki. Að þessu svari gefnu hef ég undið ofan af því sem í uppsiglingu var og horfi á manneskju sem á allan rétt á að til hennar sé hugsað af virðingu. Þessi atburðarrás tekur örskotsstund.

Ef okkur tekst að kenna börnum að þjálfa hugsanir sínar með slíkum hætti eru líkur á að við náum oft að fyrirbyggja einelti. Ég vil því velta ábyrgðinni yfir á okkur fullorðna fólkið og gera þá skýlausu kröfu að við ástundum framkomu sem einkennist af virðingu og alúð og sýnum þar með gott fordæmi. Þetta á við okkur sem erum foreldrar, ykkur sem vinnið í skólum og eyðið lunganum úr deginum með börnum, ykkur sem mætið börnum á förnum vegi og alla aðra. Með góðu fordæmi tökum við ábyrgð á okkur og umhverfi okkar; grípum inn í aðstæður þar sem einelti gæti verið í uppsiglingu og umfram allt, kennum börnum að allir verðskulda jafna virðingu.

Þegar rætt er um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn einelti í skólum má ekki gleyma að þær aðgerðir hefjast á heimilum barna. Það er því ekki nóg að ræða málin og kenna góða siði í skólum; þeir þurfa að koma að heiman líka. Ef þessi mynd á að ganga upp þurfa heimilin og skólarnir að tala saman. Samkvæmt lögum og reglum á þetta samtal að fara fram þegar verið er að byggja upp skólabrag. Foreldrar eiga að taka þátt og skólar eiga að sjá til þess að samtalið geti farið fram. Það eru auðvitað til ýmsar birtingarmyndir af þessu samtali en skyldur heimila og skóla eru skýrar og því getur enginn í þeirri jöfnu skorast undan þátttöku. Ef rétt er á haldið má koma í veg fyrir einelti í skólum. Með samtakamætti í bæjarfélagi má samræma aðgerðir með litlum tilkostnaði. Þennan samtakamátt getum við sýnt í Kópavogi, bæði í skólastarfi og öðru samfélagsstarfi.

Í stjórnmálayfirlýsingu Bjartrar framtíðar sem samþykkt var á stofnfundi árið 2012 eru tiltekin nokkur orð sem Björt framtíð stendur fyrir í sínu stjórnmálastarfi. Þar á meðal eru orðin hugrekki, svigrúm, hlýja, skilningur, traust og ábyrgð. Að baki þessum orðum má finna inntak þess sem hér hefur verið skrifað. Björt framtíð í Kópavogi vill skapa vettvang þar sem ólíkir einstaklingar bjóða fram krafta sína til þjónustu í þágu alls almennings með víðsýni, virðingu og bjartsýni að leiðarljósi.

Verum heiðarleg, viðurkennum að við höfum fordóma en tökum stjórn og berum ábyrgð á hegðun okkar og gjörðum. Þá fer vel.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Kópavogsblaðið komið út

Stolt Kópavogs eru á forsíðu Kópavogsblaðsins að þessu sinni. Karlalið Breiðabliks er komið í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu eftir að hafa slegið út Struga frá Norður-Makedóníu. Blikar leika sex leiki í

Mygla hjá velferðarsviði

Velferðarsvið Kópavogsbæjar er ekki lengur með starfsemi í Fannborg 6. Slæm loftgæði eru í húsinu sem haft hefur áhrif á starfsfólk hússins og sýna nýjustu mælingar há gildi myglugróar. Því

Stuð á Hamraborg Festival

Hamraborg Festival fór fram í lok ágúst í Hamraborg og í menningarhúsunum í Kópavogi, en Hamraborg Festival er þverfagleg hátíð með sérstakri áherslu á myndlist, staðbundin verk, gjörningalist og samfélagslega

Króníkan opnar í Gerðarsafni

Veitingastaðurinn Króníkan opnaði í sumar í Gerðarsafni. Samningur við nýjan rekstraraðila var undirritaður 11.maí, á afmælisdegi Kópavogsbæjar. Bragi Skaftason og Sigrún Skaftadóttir, systkini úr Vesturbæ Kópavogs, hafa tekið reksturinn að sér