Blindum og sjónskertum í Kópavogi er mismunað

Jónína Sif Axelsdóttir, nemandi í Menntaskólanum í Kópavogi, skrifar:

Í nútímasamfélagi þurfa allir á samgöngum að halda, hvort sem þeir eru fatlaðir eða ekki. Nú veit ég fyrir víst að Kópavogsbær gerir ekki upp á milli þegar um er að ræða ferðaþjónustu blindra eða ferðaþjónustu fatlaðra sem er kölluð ferliþjónustan. Ferðaþjónusta blindra er mikilvæg fyrir einstaklinga til þess að geta sinnt sínum daglegum þörfum  eins og vinnu, skóla og innkaupum svo nokkur dæmi séu tekin.

Þekki af eigin raun hversu mikilvægi góð ferðaþjónusta er fyrir blinda og sjónskerta
Móðir mín er einstæð og lögblind og notast við ferðaþjónustu blindra. Því þekki ég af eigin raun hversu mikilvæg góð ferðaþjónusta er fyrir blinda og sjónskerta, þar sem þeir geta ekki notað einkabílinn né almenningssamgöngur nema að takmörkuðu leyti. Móðir mín notar þessa þjónustu nánast daglega þar sem hún þarf að sinna sínum þörfum eins og hvert annað fólk. Ég ólst upp við það að enginn bíll væri til staðar á mínu heimili og því voru lífsgæði okkar kannski ekki sambærileg við vini mína. Það var ekki hægt að aka mér hvert sem er og á þeim tíma sem hentaði, en svo fluttum við og við tók tími sem fór í að leita að nýrri fasteign sem loksins fannst. Við gátum nú samt sem áður útilokað Kópavog og Hafnarfjörð því Kópavogsbær gefur það út að hann vilji ekki gera upp á milli fötlunarhópa. Ferðaþjónustan er ekki sambærileg eins og hún er í Reykjavík og á Seltjarnarnesi. Móður mína hefur alltaf langað að búa í Kópavogi. Þessi bær er einstakur og er nú talinn miðsvæðis en það sem stöðvar okkur að geta búið í Kópavogi er ferðaþjónustan. Það þykir mér afskaplega sorglegt. Að geta ekki búið í Kópavogi sökum þess að bærinn býður ekki upp á þau sjálfsögðu mannréttindi að blindir og sjónskertir einstaklingar geti notið þeirra réttinda og þeirrar aðstoðar sem þeir þurfa og eiga rétt á.

Gæti ekki stundað nám í HÍ án bílstjóra
Ég hitti Bergvin Oddsson, formann Blindrafélagsins, en hann er búsettur í Grafarvogi  og stundar nám við Háskóla Íslands og er með börn sem þurfa að fara í dagvistun. Hann gæti ekki stundað nám í HÍ nema vegna tveggja góðra bílstjóra sem hann hefur og  hafa  þeir margoft stöðvað mælinn í tæplega 4.000 kr. til þess að vera ekki að sóa ferðum og gera honum kleift að stunda háskólanám. Hver ferð má kosta allt að 4.000 kr. og geta lögblindir einstaklingar í Reykjavík og Seltjarnarnesi tekið allt að 60 ferðir á mánuði. Þjónustutíminn er frá 07:30 á morgnana og til 24 á kvöldin. Hreyfill-Bæjarleiðir gefur rúmlega 20% afslátt á hverri ferð og notandinn greiðir svo eitt strætisvagnafargjald, eða 350 kr. fyrir hverja ferð. Sveitarfélagið greiðir svo mismuninn, allt til þess að gera þessum þjóðfélagshópi tækifæri á virkri samfélagsþátttöku og auka lífsgæði þeirra.

Bergvin fór og hitti  Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóra í Kópavogi og ræddi við hann um ferðaþjónustuna í Reykjavík. Þá viðurkenndi Ármann að ferðaþjónusta blindra væri betri en hin hefðbundna ferliþjónusta fatlaðra. Enda er ferðaþjónusta blindra opin allan ársins hring og þú þarft ekki að panta bíl daginn áður líkt og í ferliþjónustunni. Því er það afskaplega sorglegt að það búi rúmlega fjörtíu blindir einstaklinga  í Kópavogi  í dag sem ekki geta verið virkir þátttakendur í samfélaginu og standa ekki jafnfætis öðrum hópum samfélagsins.

Þá má geta þess að Hafnarfjarðarbær útvegar átta ferðir á mánuði sem hann niðurgreiðir fyrir sína skjólstæðinga. Það sem má gagnrýna ferðaþjónustu blindra fyrir er að ef blindir þurfa að staldra við áður en komið er á áfangastað og þurfa kannski að skjótast inn í búð, svo dæmi sé tekið, þá þurfa leigubílstjórar að setja inn einn viðkomustað sem er því ein aukaferð sem rýrir svo lífsgæði fólks og tækifæri til virkrar samfélagsþátttöku, að mati Bergvins. „Ég er alveg til í að greiða hærra verð fyrir ferðina en mér þykir það mjög dapurt að það sé tekin af mér ein ferð þegar ég þarf að koma við einhvers staðar“, bætir Bergvin við.

Fyrir blindan einstakling sem stundar nám, vinnu og heldur utan um fjölskyldu er eðlilegur reikningur um 25 þúsund kr. mánaðarlega, sem er ekki mikið þegar horft er til þess hvað kostar að reka bíl.

Ferðaþjónusta blindra snýst ekki eingöngu um að komast á milli áfángastaða því oft á tíðum þarf bílstjórinn að aðstoða farþegann við að taka út úr hraðbanka, skjótast inn í verslun og þegar þeir þurfa að fara á einhvern ákveðinn stað eins og til læknis þá sjá þeir ekki á skilti hvar læknirinn er staðsettur í hverju húsi fyrir sig og leigubílstjórinn býður upp á þá þjónustu að fylgja kúnnanum sínum inn, en ferliþjónustan býður ekki upp á þann valmöguleika þar sem þú þarft að panta þína ferð fyrir klukkan 16:00 deginum áður og segja nákvæman tíma og staðsetningu hvert þú þarft að fara. Svo kemur bíllinn á tilsettum tíma og þá á hann eftir að stöðva á fleiri stöðum til að hleypa fólkinu út sem er með í ferliþjónustu og þá má geta að ekki er alltaf hægt að treysta á að þú komir á tilsettum tíma þangað sem þú ert að fara og þykir þetta blindum mjög óhagstætt þar sem munurinn er sá að blindir geta pantað ferðaþjónstu sína í Reykjavík og á Seltjarnarnesi alla daga, sama á hvaða tíma dags og án þess að þurfa að panta bíl með sólarhrings fyrirvara líkt og notendur í ferliþjónustunni.

Kópavogsbær gaf það út að hann vildi gera jafnt fyrir alla, ef hugsað er aðeins út fyrir rammann eins og kannski þegar um er að ræða blinda einstaklinga þar sem þeir þurfa hjálp við sínar þarfir og ferliþjónustan er slæm að því leytinu til að hún getur ekki sinnt sínum blindu kúnnum í Kópavogi við sínar þarfir svo sem að fara í verslun.

Þetta mál  er mér ofarlega í huga þar sem mér finnst vera að skerða lífsgæði blindra í Kópavogi. Því hvet ég stjórn Kópavogsbæjar að skoða þessi mál og tryggja blindum íbúm Kópavogsbæjar viðunandi ferðaþjónustu.

Jónína Sif Axelsdóttir, nemandi í Menntaskólanum í Kópavogi

 

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn