Minn sykursæti lífsstíll er fyrsta bók Lilju Katrínar Gunnarsdóttur sem fjallar eingöngu um bakstur. Og það sætan og hveitifylltan bakstur sem fyllir vitin af gleði og magann af gúmmulaði.

„Ég var búin að bera þennan draum í maganum, ásamt öllu kruðeríinu, í svolítið langan tíma en eftir að ég náði að safna rúmlega hálfri milljón fyrir stuðningsfélagið Kraft í bökunarmaraþoni sem ég hélt á heimili mínu á Kársnesinu þá fékk ég sírópssprautuna í rassinn sem ég þurfti,” segir Lilja Katrín. Sjálfur forsetinn lét sjá sig veitti Lilju Katrínu aukinn meðbyr. „Það veitti mér virkilega mikinn kraft á síðustu metrunum í maraþoninu. Fyrst ég gat safnað svona miklum pening með því að baka í sólarhring og fengið forsetann í heimsókn í litla eldhúsið mitt í Melgerðinu þá hlaut ég að geta safnað fyrir útgáfu á sjúklega sykursætri bók. Þannig að ég hóf söfnun á Karolina Fund og “the rest is history” eins og þeir segja. Því má alveg segja sem svo að þessi bók mín hafi fæðst á eldhúsgólfinu í húsinu í Kópavogi þar sem amma og afi eiginmanns míns bjuggu sér til huggulegt heimili. Amma eiginmanns míns bakaði einmitt mjög mikið og allt þvílíkar kræsingar, þannig að ég vona að hún horfi niður á okkur stolt. Ég reyndar afrekaði það á þriðja degi í húsinu að rústa ofninum hennar sem var tekinn í gagnið árið 1965. Ég veit ekki hve ánægð hún var með það þessi elska.“
Dásemdir sem ekki þarf að baka
Bókin er kaflaskipt eftir kruðerí og ættu allir að finna eitthvað sem þeir ráða við. „Ég veit að margir hræðast bakarofninn eins og heitan eldinn, þannig að ég splæsti í sérkafla með dýrindis dásemdum sem þarf ekki að baka. Svo eru þarna bollakökur, smákökur, hugmyndir að brönsjgóðgæti og auðvitað tertur og kökur. Uppáhaldskaflinn minn er hins vegar konfektkaflinn þar sem ég býð upp á alls kyns heimagert nammi sem við þekkjum flest, eins og Snickers, Twix, After Eight og Bounty.“
Stoltust er Lilja Katrín af Forsetamarengsinum sem er tileinkuð Guðna Th. Jóhannessyni, forseta, vegna þess styrks sem hann veitti henni í bökunarmaraþoninu. „Það er reyndar líka mynd af okkur á bókarkápunni. Ég er kannski fullmikil forsetasleikja? Ég sé það núna að þetta er kannski pínu vandræðalegt. Ég verð hugsanlega að koma á hann eintaki svo honum bregði ekki út í búð,“ segir Lilja Katrín og hlær.
Fullt af hugmyndum
„Ég skil vel að fólk gefi út bók eftir bók. Mér líður pínulítið eins og ég sé orðin háð þessu. Nú poppa upp hugmyndir að bókum nánast daglega og mig klæjar í puttana að skrifa meira; baka meira, borða meira, prófa meira, sykra mig frá toppi til táar og sofna með smjörkrem í hárinu. Ég verð að minna mig á hve mikil vinna þetta er, en ég og maðurinn minn gefum bókina út sjálf og sjáum um allt sjálf. Ég skrifa og baka, hann hannar útlitið og svo fengum við æðislegan ljósmyndara með okkur í lið, hana Sunnu Gautadóttur, sem gerir bókina 1000 prósent fallegri. Bókaútgáfa er pínulítið eins og að eignast barn. Maður gleymir fljótt hve ofboðslega strembið það var og langar samstundis að gera það aftur.“
Bókina er hægt að fá keypta beint frá Lilju Katrínu en svo líka hægt að nálgast hana í Kjólar og Konfekt. „Ég var reyndar rétt í þessu að skrifa undir sölusamning við Pennann/Eymundsson. Og þess ber að geta að Bókasafn Kópavogs var með fyrstu aðilunum sem tryggði sér eintak. Það er líka alltaf hægt að fara á bloggsíðuna mína, www.blaka.is. Þar sem er fullt af girnilegum og sykursætum uppskriftum.“