Bókakafli: Maníuraunir

Reynslusaga strípalingsins á Austurvelli

Kristinn Rúnar Kristinsson.

Þann 25. október kom bókin mín út sem heitir Maníuraunir – Reynslusaga strípalingsins á Austurvelli. Þetta er fyrsta bókin mín en ég byrjaði að skrifa hana í nóvember sl. Ellefu mánuðum síðar er 300 blaðsíðna bók á leið í prentun sem ég er gríðarlega ánægður með að sé að gerast.
Eins og titillinn gefur til kynna eru þetta frásagnir af atburðum sem hafa hent mig í maníu, eða oflætisástandi á íslensku. Ég er greindur með geðhvörf. Tilgangur bókarinnar er aðallega að fræða fólk um maníu. Hin hliðin, þunglyndi, er miklu þekktari og meira verið fjallað um í gegnum tíðina. Ég get fullyrt, eftir að hafa haldið fjölmarga fyrirlestra um geðhvörf, að 90% fólks veit ekki hvað manía felur í sér.

Brot úr bókinni er hér fyrir neðan en áhugasamir um að tryggja sér eintak geta pantað á kristinnrunar.com. Frí heimsending.

„Ég er heitfengur að eðlisfari en þetta kvöld klæddi ég mig óvenju vel, ég vissi innst inni að ég yrði langt fram eftir nóttu að aðhafast eitthvað. Skemmtistaðirnir lokuðu klukkan hálf fimm um nóttina en ég var allsgáður. Eftir að staðirnir lokuðu fór ég einhverra hluta vegna að Ráðhúsi Reykjavíkur og fór að skoða bygginguna – hún er virkilega flott.
Það var kalt þessa nótt þótt heitt hefði verið í veðri fyrr um daginn. Ég fór upp stigann og gat virt fyrir mér hvað væri innandyra. Ég tók spretti upp og niður stigann til þess að halda á mér hita og fór síðan að kanna ljóskastarann efst uppi. Ég lagðist flatur á magann, á vægast sagt óþægilegar tröppurnar, sem voru úr ójöfnu stáli og lagði frá mér símann, sem hefði lent beint ofan í Tjörninni hefði ég rekist örlítið í hann.
Ég virti fyrir mér ljósið og fór að sjá ótrúlegustu hluti eftir því sem ég horfði dýpra í það. Mér fannst þessi sterka lýsing varpa ljósi á framtíð mína og ég varð eðlilega mjög spenntur. Að sjálfsögðu var þar að verki Guðni heitinn, bróðir minn, hver annar? Einungis ég gat lesið út úr teikningunum, það var ekki fræðilegur möguleiki að einhver annar gæti séð eitthvað út úr þessu. Við Guðni vorum þeir einu sem skildum þetta. Ég hef síðan hann lést alltaf haft þá sterku tilfinningu að hann hafi látist til þess að leiðbeina mér í lífinu. Sú hugsun er til staðar hvort sem ég er í maníu eða ekki.
Ég áttaði mig á því að við myndum gera eitthvað mjög stórt saman í framtíðinni; hann að fylgjast með mér úr fjarlægð og leiðbeina mér í framhaldinu – ég sá þarna í efstu tröppum Ráðhúss Reykjavíkur hvað framtíðin bæri í skauti sér. Ég myndi sjálfur eignast tvö börn, strák og stelpu og kvænast frábærri konu sem ætti stúlkubarn fyrir. Þessi kona myndi smellpassa við mig og saman myndum við upplifa glás af gleði og hamingju. Þetta myndi gerast um og yfir þrítugt hjá mér, líklega þegar ég yrði 32-33 ára. Fyrsta æviskeið mitt var ein rússíbanareið, hin 50-60 árin kæmu til með að verða miklu betri, og ég myndi miðla af reynslu minni til annarra.

Ég sá fyrir mér líkamsrækt og sjálfan mig í fantaformi. Mig hefur alltaf langað til að starfa í þeim geira. Ástæðan fyrir því að ég flutti til Mexíkó, haustið 2013, var að ég komst ekki inn í einkaþjálfaranámið í Keili sama ár. Tekin var ákvörðun um að fækka nemendum um helming; mér fannst það skrifað í skýin að með þessum niðurskurði væri mér ætlað að flytja út og sjá nýja heima. Ég komst inn ári síðar en upplifði uppsveiflu í upphafi námsins. Ég tek þetta aftur eða fer í sambærilegt nám þegar réttur tími gefst, ég er handviss um það.
Á milli þess sem ég sá framtíð mína þarna taldi ég mig vera að stjórna veðrinu á Íslandi til frambúðar. Sjónarhornið sem ég hafði á toppi Ráðhússins var stórfenglegt. Klukkan var orðin sex að morgni og ég hljóp áfram, upp og niður, til að halda á mér hita. Ég sá einnig í ljósinu mynd af öllum heiminum, og þar var ýmislegt áhugavert, og mér fannst ég þurfa að vera þarna alla nóttina til að vera við stjórnvölinn. Ætli ég hafi ekki haldið að ég væri að stjórna heiminum.

Ég heyrði jafnvel grasið gróa og hvert hljóð fuglanna, eins og um sjálfan Heimdall úr norrænni goðafræði væri að ræða. Ég hugsaði með mér að ég yrði að standa mig fyrir þá, fuglana, því þeir upplifðu alltof mikinn kulda og baráttu hérna á veturna. Mér fannst þeir líka vita að ég væri í þessu verkefni; þeir bókstaflega kölluðu á mig.
Ég settist niður, horfði í ljósið og hreyfði höfuðið eftir því hvert ég vildi að sólin kæmi og reyndi eins og ég mögulega gat að koma henni sem mest til Íslands og koma hingað hlýrra lofti. Miðað við hvað það var kalt veturinn 2017-2018 þá er ljóst að þetta tókst því miður ekki hjá mér, raunar var vorið og sumarið á eftir ekki upp á marga fiska heldur. Ég sá heiminn einnig það greinilega í ljósinu að ég gat komist inn í hverfi í öllum borgum heimsins. Ég taldi að Guðni væri að sýna mér hvar hættur heimsins lægju og hvar öruggt væri að vera. Þetta hljómar mjög súrrealískt, en það er sérstakt hvað upplifunin var sterk.
Upplifanir á borð við þessa eru það magnaða við geðhvörfin. Einungis 1% fólks í heiminum veit hvað ég er að tala um, þótt vissulega séu niðursveiflurnar líka fylgifiskur maníu – og þær geta oft verið skelfilegar.
Mér fannst aukinheldur eins og stjórnmálamenn landsins vissu af mér og langaði til að reyna á þolrif mín varðandi stjórnun landsins. Hve langt kæmist ég? Hve mikið þol hef ég? Rennur í æðum mér hið fræga víkingablóð, sem þarf jú til að stýra landinu til frambúðar?
Ég fór heim á milli klukkan sjö og átta um morguninn, gjörsamlega búinn á því. Ég rölti rösklega að bílnum, sem var falinn rétt hjá styttunni af Ingólfi Arnarsyni. Ég rétt náði að halda augunum opnum á meðan ég keyrði heim í Kópavog. Ég fékk það á tilfinninguna að lögreglan og einhverjir fleiri væru í þann mund að fara að hringja á sjúkrabíl því ég hafði reynt svo gríðarlega á þolmörk líkamans. En ef ég stæðist þetta próf yrðu mér afhent völd innan stjórnmálanna, jafnvel þótti mér líklegt að valinkunnir stjórnmálamenn hefðu verið að fylgjast með mér inni í Ráðhúsi Reykjavíkur og myndu opna fyrir mér þegar ég hefði staðist prófið. Það gerðist þó ekki að þessu sinni, líklega þarf ég að reyna aðrar og betri leiðir aftur síðar.“
– Kristinn Rúnar Kristinsson

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Kópavogsblaðið komið út

Stolt Kópavogs eru á forsíðu Kópavogsblaðsins að þessu sinni. Karlalið Breiðabliks er komið í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu eftir að hafa slegið út Struga frá Norður-Makedóníu. Blikar leika sex leiki í

Mygla hjá velferðarsviði

Velferðarsvið Kópavogsbæjar er ekki lengur með starfsemi í Fannborg 6. Slæm loftgæði eru í húsinu sem haft hefur áhrif á starfsfólk hússins og sýna nýjustu mælingar há gildi myglugróar. Því

Stuð á Hamraborg Festival

Hamraborg Festival fór fram í lok ágúst í Hamraborg og í menningarhúsunum í Kópavogi, en Hamraborg Festival er þverfagleg hátíð með sérstakri áherslu á myndlist, staðbundin verk, gjörningalist og samfélagslega

Króníkan opnar í Gerðarsafni

Veitingastaðurinn Króníkan opnaði í sumar í Gerðarsafni. Samningur við nýjan rekstraraðila var undirritaður 11.maí, á afmælisdegi Kópavogsbæjar. Bragi Skaftason og Sigrún Skaftadóttir, systkini úr Vesturbæ Kópavogs, hafa tekið reksturinn að sér